Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - KA 32-25 | KA fjarlægist úrslitakeppnina

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ólafur Bjarki fór mikinn í liði Stjörnunnar í kvöld.
Ólafur Bjarki fór mikinn í liði Stjörnunnar í kvöld. vísir/bára

Stjarnan vann í dag góðan sjö marka sigur á KA-mönnum á heimavelli, leikið var í Ásgarði en ekki Mýrinni að þessu sinni, en það kom ekki að sök og taka Garðbæingar tvö stig með sér úr þessum leik. Með sigrinum jók Stjarnan forskot sitt á KA í sex stig, en KA er það lið sem ógnar úrslitakeppnissæti Stjörnunnar hvað mest ásamt Fram.

Leikurinn var jafn og spennandi framan af og eftir tæplega 20 mínútna leik var allt jafnt 8-8. Þá kom góður kafli Stjörnumanna og þeir komust í þriggja marka forskot. Þeir héldu svo því forskoti út hálfleikinn og hálfleikstölur 14-11, heimamönnum í vil.

Stjörnumenn héldu áfram þar sem frá var horfið í seinni hálfleik og juku forustu sína. Eftir aðeins 5 mínútur í seinni hálfleik var munurinn orðinn sex mörk. Til að bæta gráu ofan á svart fékk Daði Jónsson, leikmaður KA að líta beint rautt spjald þegar um átta mínútur voru búnar af seinni hálfleik.

KA menn náðu aldrei að brúa bilið, þrátt fyrir fínan varnarleik á köflum voru þeir með ótal tapaða bolta og Stjörnumenn leystu vel úr sóknarleik þeirra. Niðurstaðan var því sjö marka sigur Stjörnunnar, 32-25.

Af hverju vann Stjarnan?

Stjörnumenn voru agaðir í sínum leik. Þeir náðu að leysa úr sóknarleik KA manna eftir um 20 mínútur og voru heilt yfir betri aðilinn í leiknum. Eins og komið hefur fram var KA með mikið af töpuðum boltum og þá sérstaklega í síðari hálfleik. Stjarnan gekk á lagið og jók forskot sitt jafnt og þétt og voru með yfirhöndina allan leikinn.

Hverjir stóðu upp úr?

Ólafur Bjarki og Tandri Már voru bestu menn vallarins í dag. Þeir skoruðu báðir sjö mörk úr 10 skotum og skiluðu báðir mjög sterku framlagi. Andri Már Rúnarsson átti líka góðan leik, skoraði 3 mörk úr þrem skotum og stýrði spilinu vel þegar á reyndi. Ólafur Rafn Gíslason kom líka sterkur inn í markið um miðbik leiksins og varði fimm bolta, þar af eitt víti.

Hvað gekk illa?

KA gekk illa að brúa bilið sem Stjarnan hafði myndað. Það komu nokkur augnablik þar sem að leit út fyrir að nú gætu þeir mögulega gert áhlaup, en þá töpuðu þeir of oft boltanum og Stjarnan keyrði fram í hraðaupphlaup og drap það í fæðingu.

Hvað gerist næst?

KA fær Fram í heimsókn í næsta leik. Þessi tvö lið eru í níunda og 10.sæti og þessi leikur er því mjög mikilvægur fyrir bæði lið. Bæði lið geta með sigri haldið í vonina um úrslitakeppni, en tap þýðir að fallhættan er raunveruleg.

Stjarnan fær Selfyssinga í heimsókn í næstu umferð. Selfyssingar ætla sér líklega að hefna fyrir seinasta leik þessara liða, þegar að Stjarnan vann 13 marka sigur og sló þá út úr bikarnum.

Stefán Árnason, þjálfari KA.Vísir/Bára

Stefán: Þú mátt ekki taka neitt 50/50, þá er bara búið að refsa þér

„Stjarnan var bara betri en við í dag,“ sagði Stefán Árnason, þjálfari KA eftir leikinn.

„Við reyndum að þeim erfitt fyrir, við spiluðum vel fannst mér á löngum köflum og það sem við vorum að reyna gekk að miklu leyti upp.“

Stefán segir að inn á milli hafi hann þó ekki verið ánægður með spilamennskuna.

„Við vorum klaufar inn á milli og misstum þá full mikið frá okkur í fyrri hálfleik. Ég hefði viljað hafa þetta bara í svona ein til tveim mörkum og hafa þetta þá jafnan leik í hálfleik.“

Stefán var samt ánægður með framlag liðsins í dag. „Við vorum að reyna margt og mér fannst strákarnir vera að leggja sig alla fram og þessi leikur er eitthvað til að byggja á.“

Stefán var svo spurður út í alla þá töpuðu bolta sem KA var með í dag.

„Stjarnan er bara með mjög sterkt lið og virkilega góðan mannskap. Þeir ættu í rauninni að vera ofar í deildinni og þú mátt bara ekkert misstíga þig gegn þeim, mátt ekki taka neitt 50/50, þá er bara búið að refsa þér.“

Daði Jónsson, leikmaður KA fékk að líta beint rautt spjald í leiknum, en Stefán vildi lítið tjá sig um það. „Maður svo sem sér þetta ekki nógu vel og ég þarf bara að skoða þetta á teipi áður en ég segi eitthvað.“

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar.Vísir/Bára

Rúnar: Á meðan að það er tölfræðilega hægt að klúðra þessu þá er ég alveg viss um að við getum það

„Ég er mjög ánægður með það hvernig við spiluðum leikinn. Það var ákveðinn þéttleiki og þyngd í leik okkar fram á við og við jukum forskotið hægt og rólega og svo er ég sérstaklega ánægður með það hvernig við komum inn í seinni hálfleik,“ sagði Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir sigurinn í kvöld. 

Rúnar var ánægður með hvernig þeir leystu vörn gestanna.

„Þetta var mjög þungt hjá okkur í byrjun og það var gott að við náðum ákveðnum léttleika í sóknarleikinn í lok fyrri hálfleiks og við höldum því áfram í byrjun seinni.“

„Leikurinn var hægur og þeir spila sjö á sex sem gefur ekki kost á mörgum sóknum þannig að það var þeim mun erfiðara að vinna svona stóran sigur eins og við gerðum í dag,“ sagði Rúnar.

Rúnar talaði einni um stöðuna í deildinni og að þó að þeir væru komnir með smá forskot í áttunda sætinu væri enn þá hellingur eftir.

„Við höldum áfram að fara í leiki til að vinna, það er alveg klárt og það er ekkert komið enn þá. Á meðan að það er tölfræðilega hægt að klúðra þessu þá er ég alveg viss um að við getum það,“ sagði Rúnar léttur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira