Lífið

Bestu alþjóðlegu landslagsmyndirnar voru teknar á Íslandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Ein sigurmynda Ershov var tekin í Kerlingarfjöllum.
Ein sigurmynda Ershov var tekin í Kerlingarfjöllum. Oleg Ershov

Þrjár af fjórum ljósmyndum sem rússneski ljósmyndarinnar Oleg Ershov hlaut verðlaun fyrir í samkeppni um bestu landslagsmyndir síðasta árs voru teknar í íslenskri náttúru. Ershov segir að Ísland sé á meðal uppáhaldsstaða hans fyrir myndatökur í heiminum.

Um 3.400 ljósmyndir frá tæplega þúsund ljósmyndurum um allan heim öttu kappi í alþjóðlegu landslagsmyndakeppninni 2019 (The International Landscape Photographer of the Year) en tilkynnt var um úrslit hennar í Sydney í Ástralíu í byrjun þessa mánaðar. Ershov, sem er áhugaljósmyndari sem fjármagnar áhugamálið með því að vinna í matvæladreifingarfyrirtæki, bar sigur úr býtum í keppninni um landslagsljósmyndara ársins.

Frá Háafossi. Oleg Ershov

Af myndunum fjórum sem Ershov lagði fram í keppnina voru þrjár teknar á Íslandi, við Bláfellsá, í Kerlingarfjöllum og við Háafoss. Dómnefnd taldi Ershov hafa sýnt bæði hæfileika og ímyndunarafl með röð stórbrotinna landslagsmynda.

Frá Bláfellsá. Oleg Ershov

Í tilkynningu frá keppnishöldurum er haft eftir Ershov að ástríða hans fyrir landslagsljósmyndun byggist á ást á náttúrunni, sérstaklega þó stöðum sem eru enn ósnortnir af athöfnum manna. Uppáhaldsstaðirnir hans til að taka myndir séu Ísland, Skotland og suðvesturríki Bandaríkjanna.

„Ég fer alltaf aftur á uppáhaldsstaðina mína því það gerir mér kleift að kynnast landinu betur og að finna nýtt sjónaspil og staði til að mynda,“ segir Ershov.

Hægt er að skoða fleiri myndir Ershov á myndasíðu hans.

Frá Kerlingarfjöllum. Oleg Ershov
Fjórða myndin í röðinni sem Ershov hlaut verðlaunin fyrir var tekin í Fleswick-flóa á Englandi. Oleg Ershov


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.