Körfubolti

Körfu­bolta­kvöld: „And­rúms­loftið var svaka­legt“

Anton Ingi Leifsson skrifar

KR og Tindastóll hafa átt margar rimmurnar síðustu ár og ein þeirra fór fram í Síkinu á sunnudagskvöldið.

Tindastóll hafði betur í leiknum en bæði lið lögðu rosalega orku í leikinn.

Dominos Körfuboltakvöld var á dagskrá í gærkvöldi og þar var farið yfir umferðina og hún greind niður í öreindir.

„KR er búið að vera spila vanilluvörn undanfarið en þarna voru þeir að spila alvöru vörn sem þeir geta spilað,“ sagði Benedikt Guðmundsson.

„KR lagði mjög mikið andlega í þetta og komu mjög tilbúnir í þetta. Það sást hversu vel þeir hittu fyrir utan þriggja stiga línuna,“ bætti Kristinn Friðriksson við.

„Ég get ímyndað mér að þetta sé súrasta tapið þeirra í vetur,“ sagði Kristinn.

Einvígi þessara liða hafa verið rosaleg að undanförnu og voru sýndar nokkrar klippur úr leiknum þar sem hart var barist.

„Í lokin eru menn mjög þreyttir, stressaðir og lemstraðir og þá getur skilað það á milli að hitta einni grísakörfu,“ sagði Sævar Sævarsson.

„Það er kergja á milli þessara liða. Það var verið að punda á Inga úr stúkunni allan leikinn og Ingi er ekki vinsælasti maðurinn á Króknum eftir rimmuna við Helga út í KR.“

„KR-ingum finnst Helga durtur og alltaf menn meiddir í kringum hann og svona. Þetta var bara svona. Andrúmsloftið í þessum leik var svakalegt. Þetta var meira en úrslitakeppni,“ sagði Benedikt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×