Handbolti

Þjálfari ÍBV sagður hafa kallað dómara „djöfulsins apakött“

Henry Birgir Gunnarsson og Ingvi Þór Sæmundsson skrifa
Sigurður Bragason er þjálfari meistaraflokks kvenna hjá ÍBV.
Sigurður Bragason er þjálfari meistaraflokks kvenna hjá ÍBV. vísir/bára

Sigurður Bragason missti stjórn á skapi sínu í leik Fram U og ÍBV U í Grill 66 deild kvenna í handbolta á sunnudaginn.

Samkvæmt heimildum Vísis kallaði Sigurður annan dómara leiksins, Ricardo Bernardo Machai Xavier, djöfulsins apakött. Málið var tekið fyrir á fundi aganefndar HSÍ.

Undir lok fyrri hálfleiks skoraði Fram sitt þrettánda mark í leiknum. Tíminn var greinilega runninn út áður en boltinn fór inn fyrir marklínuna en Ricardo dæmdi markið samt gott og gilt. Hann dæmdi leikinn ásamt Heklu Daðadóttur.

Sigurður var vægast sagt ósáttur við dóminn og mótmælti kröftuglega. Ricardo gaf honum fyrst gula spjaldið, svo tveggja mínútna brottvísun og loks rauða spjaldið.

Sigurður hélt áfram að mótmæla og samkvæmt heimildum Vísis kemur fram í skýrslu dómara að Sigurður hafi, á leið sinni til búningsherbergja, kallað Ricardo „djöfulsins apakött“.

Leikur Fram U og ÍBV U var sýndur á Fram TV og myndband af atvikinu má sjá hér fyrir neðan. Fram U vann leikinn, 33-19.

Klippa: Þjálfari ÍBV úthúðaði dómara







Sigurður er þjálfari meistaraflokks kvenna hjá ÍBV og hefur einnig verið á bekknum í flestum leikjum ÍBV U í Grill 66 deild kvenna í vetur.

Málið var tekið fyrir á fundi aganefndar HSÍ í fyrradag en frestað um sólarhring. Skrifstofu HSÍ var falið að kynna ÍBV fram komna skýrslu og gaf félaginu færi á að koma athugasemdum á framfæri áður en aganefnd tók málið aftur fyrir á fundi sínum.

Sigurður hefur áður komist í fréttir fyrir hegðun sína innan sem utan vallar. Árið 2015 sendi ÍBV frá sér yfirlýsingu vegna ummæla sem Sigurður hafði látið falla og baðst afsökunar á þeim. Þá gisti hann fangageymslur árið 2018 eftir að hafa ráðist á einn leikmanna karlaliðs ÍBV í bikarfögnuði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×