Körfubolti

Segir að hún hefði getað verið í þyrlunni með Kobe Bryant

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nancy Lieberman og svo Kobe Bryant og Gianna Bryant.
Nancy Lieberman og svo Kobe Bryant og Gianna Bryant. Samsett/Getty

Frægðarhallarmeðlimurinn Nancy Lieberman talaði um Kobe Bryant og símtalið sem hún hefði getað fengið frá honum kvöldið áður en Kobe fórst ásamt dóttur sinni og sjö öðrum.

Nancy Lieberman er meðlimur í frægðarhöllinni fyrir starf sitt sem leikmaður, þjálfari og brautryðjandi í kvennakörfuboltanum í Bandaríkjunum.

Nancy þekkti Kobe Bryant líka mjög vel og segir að síðustu dagar hafa verið henni mjög erfiðir. Hún veit líka að hún sjálf hefði getað verið í þyrlunni þennan sunnudagsmorgunn.

Tveimur dögum fyrir slysið skrifaði hún á Twitter síðu sína að Kobe Bryant hefði beðið hana að koma og horfa á Giönnu, dóttur sína, spila í Mamba-íþróttasalnum. Kobe og Gianna voru á leiðinni í þann leik þegar þyrlan fórst.



Nancy Lieberman sagði frá því að hún var búin að lofa sér á ráðstefnu annars staðar og gat því ekki orðið við ósk Kobe Bryant.

„Ef Bryant hefði hringt í mig á laugardaginn, ég hefði verið í Dallas án þess að vera með nein plön og hann hefði spurt mig: Komdu til Los Angeles, komdu og horfðu á Giönnu spila. Ég hefði farið, það er engin spurning um það,“ sagði Nancy Lieberman í viðtali við New York Post.



„Ég gat ekki andað þegar ég heyrði fréttirnar. Ég vissi ekki hvort ég þyrfti að fara á sjúkrahús. Þetta er svo sorglegt. Ég er harmi lostin og niðurbrotin. Ég held að ég hafi ekki grátið svona mikið í mörg ár vegna þess hversu náin við vorum,“ sagði Nancy Lieberman.

Nancy Lieberman var fyrsta konan til að þjálfar karlalið í Bandaríkjunum þegar hún stýrði NBA þróunarliði Texas Legends árið 2009 og hún var næstfyrsta konan til að verða aðstoðarþjálfari í NBA-deildinni hjá Sacramento Kings árið 2015.

Nancy Lieberman var líka frábær leikmaður sem spilaði síðustu leiki sína í WNBA deildinni þegar hún var fimmtug, með Detroit Shock árið 2008. Hún varð heimsmeistari með bandaríska körfuboltalandsliðinu árið 1979.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×