Umfjöllun og viðtöl: Þór Ak. - Tindastóll 86-96 | Stólarnir stöðvuðu sjóðheita Þórsara

Jón Ágúst Eyjólfsson skrifar
vísir/bára

Það var mikið undir í Höllinni á Akureyri þegar heimamenn í Þór tóku á móti grönnum sínum í Tindastól (ekki nema u.þ.b. 120 km á milli) í baráttunni um Norðurlandið. Liðin að berjast á sitt hvorum enda deildarinnar en það hefur sjaldnast nokkur áhrif þegar þessi lið mætast.

Fyrsti leikhlutinn var hraður og fjörugur. Liðin skiptust á körfum og lítið var um varnir. Þórsarar fóru hins vegar í svæðisvörn undir lok leikhlutans og náðu þá að hægja aðeins á Stólunum. Gestirnir höfðu þó eins stigs forskot þegar leikhlutanum lauk, 23 – 24.

Gestirnir byrjuðu af krafti í öðrum leikhluta og virtust ætla að stinga af. Heimamenn voru hins vegar ekki á sama máli og jöfnuðu leikinn þegar þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Aftur sigu gestirnir fram úr og leiddu með átta stigum í hálfleik, 42 – 50.

Strax í upphafi síðari hálfleiks virtust gestirnir ætla að gera út um leikinn. Vörn þeirra hertist og við það fengu þeir auðveldari körfur á hinum enda vallarins. Þegar fjórðungurinn var hálfnaður munaði 16 stigum á liðunum. Þórsarar náðu hins vegar að klóra í bakkann og saxa á forskot gestanna en þó ekki svo að þriðja fjórðung loknum munaði 11 stigum á liðunum.

Fjórði fjórðungur spilaðist svipað og sá þriðji. Gestirnir höfðu frumkvæðið og virtust ætla að sigla þessu auðveldlega heim en þegar um það bil tvær mínútur lifðu leiks áttu Þórsarar stórgóða rispu. Hansel Atencia stal þá boltanum og brunaði fram og setti niður tvö stig. Þá munaði sjö stigum á liðunum.

Strax í kjölfarið stelur Hansel boltanum aftur og Pablo Hernandez setur niður þriggja stiga körfu. Munurinn allt í einu ekki nema fjögur stig og 1 mínúta og 40 sekúndur eftir. Því miður fyrir heimamenn komust þeir ekki nær og gestirnir höfðu að lokum 10 stiga sigur, 86 – 96.

Afhverju vann Tindastóll?

Þeir spiluðu betri vörn og nýttu vítin sín betur. Þeir tóku líka fleiri fráköst og það er oft þáttur sem skilar þér sigri.

Hverjir stóðu upp úr?

Sinisa Bilic var stigahæstur í liði gestanna með 27 stig. Deremy Geiger átti sömuleiðis góðan dag og skilaði 22 stigum. Hjá heimamönnum átti Paplo Hernandez fínan leik, 22 stig og 12 fráköst.

Hvað gekk illa?

Hér verður að minnast á vítanýtingu heimamanna í Þór. Þeir brenna af níu vítum í leiknum og það munar um minna í svona leik. Í raun er hægt að tala um slæma skotnýtingu almennt hjá Þórsurum. Þeir hitta 40% utan af velli, 32 af 79 skotum þeirra rötuðu rétta leið.

Hvað gerist næst?

Þórsarar eiga ekki létt verk fyrir höndum. Þeir bregða sér vestur á Reykjanesið og mæta þar frískum Keflvíkingum í Blue-höllini. Tindastólsmenn fá svo KR inga í heimsókn í Síkið.

Lárus Jónsson: Stólarnir stýrðu leiknum betur en við

Þjálfari Þórsara, Lárus Jónsson, var hreinn og beinn þegar hann var spurður út í tap sinna manna gegn Tindastól fyrr í kvöld.

„Stólarnir stýrðu þessum leik kannski aðeins betur en við. Við áttum möguleika á að komast inn í hann og reyna að spila aðeins hraðari leik. Við náum til dæmis að þvinga þá í 18 tapaða bolta en svo voru fráköstin í lok leiks sem skildu að,“  sagði Lárus og bætti við að „það munaði bara svolítið miklu um að Mantas spilaði bara einhverjar fjórar og hálfa mínútu vegna meiðsla.“

Lárus á þar við Mantas Virabalas sem hlaut þungt högg á höfuðið stuttu eftir að hann kom inn á í fyrsta leikhluta. Aðspurður um stöðuna á honum segist Lárus vona að ekki sé um neitt alvarlegt að ræða.

„Hann bara sá tvöfalt og vonandi þarf hann bara að jafna sig og verður klár í næsta leik á sunnudag.“

Í upphafi síðari hálfleiks skildi á milli liðanna og sagðist Lárus hafa greint þreytumerki á sínu liði.

„Þeir hittu úr frekar stórum skotum og mér fannst vera smá þreytumerki á okkur. Við vorum að fá opin skot og töluðum um í leikhléi að þeir væru búnir að koma með sitt rönn þannig að við myndum koma með okkar en mér fannst bara vera eins og lappirnar væru aðeins of þungar, skotin voru bara of stutt.“

Leikurinn í kvöld var fjórði leikur Þórsara á níu dögum og sagði Lárus það muna um það.

„Við spiluðum á mánudaginn á meðan að þeir hvíldu þá.“

Varðandi framhaldið sagði Lárus markmiðið að sjálfsögðu enn vera að halda sæti sínu í deildinni, þrátt fyrir að stutt sé í áttunda og síðasta sæti úrslitakeppninnar.

„Fyrsta markið er náttúrulega alltaf bara að halda sér í deildinni eða bara markmiðið okkar núna er bara að fara í Keflavík og vinna þar,“ sagði Lárus fullur sjálfstraust að lokum.

Pétur Rúnar: Ekkert lið komið hingað og tekið auðveldan sigur

Pétur Rúnar Birgisson, leikstjórnandi Tindastóls, var að vonum ánægður með sigur sinna manna á Akureyri í kvöld.

„Mjög ánægður. Það er held ég ekkert lið sem hefur komið hingað og tekið auðveldan sigur. Stjarnan rétt nær í sigur og KR tapar hérna fyrir bara þremur dögum þannig að ég er mjög ánægður að við náðum að halda þetta út og bara halda þeim alltaf í hæfilegri fjarlægð.“

Leiðir skildu í hálfleik og aðspurður sagði Pétur að vörnin hafi þar spilað stórt hlutverk.

„Við töluðum um það í hálfleik að við myndum klára þetta varnarmegin á vellinum og settum þarna nokkur skot. Svo aftur á móti taka þeir leikhlé og við dettum aðeins niður aftur og þeir ná smá rönni. Það er ekkert svo mikill munur í fjórða. En við gerðum mjög vel fyrstu fimm mínúturnar í þriðja leikhluta að halda fókus og stoppa þá varnarlega.“

Næsti leikur Stólanna er gegn KR en liðin eru jöfn að stigum í þriðja og fjórði sæti. Pétur segir Tindastólsmenn klára í átökin.

„Við erum bara klárir að tækla leikina sem framundan eru og erum bara held ég á fínum stað.“

Baldur Þór: Þurfum að spila okkar körfubolta en ekki þeirra

Þjálfari Tindastóls, Baldur Þór Ragnarsson, var sáttur með sigur manna á Akureyrir í kvöld.

„Bara mjög ánægður að vinna hérna á móti liði sem hefur náð í fullt af sigrum upp á síðkastið.“

Þórsarar spiluðu flotta svæðisvörn undir lok fyrsta leikhluta og tók Baldur leikhlé til að ræða við sína menn um hvernig þeir ættu að bregðast við. Baldur sagði að hann hefði brýnt fyrir sínum mönnum að halda í gildi liðsins.

„Við viljum gera ákveðna hluti í vörn og sókn og passa upp á þá hluti.“

Lið Baldurs kom vel gírað út úr hálfleiknum og aðspurður hvað hann hefði predikað yfir þeim í hálfleik sagði hann það einfaldlega hafa verið það sama og hann minntist á áður varðandi gildin.

„Þórsararnir eru mjög hraðir og við getum alveg auðveldlega farið í einhvern eltingaleik við þá hérna þannig að við þurfum að spila okkar körfubolta en ekki þeirra svo það var fókusinn hjá okkur í kvöld,“ bætti Baldur við.

Það vakti athygli blaðamanns að Gerel Simmons kom ekki inn af bekknum þegar Deremy Geiger fékk sér sæti. Baldur sagði þó góða og gilda ástæðu vera fyrir því.

„Hann er bara meiddur aftan í læri karlinn þannig að það var ekkert hægt að nota hann í dag. Það er ekkert vandamál eða neitt, bara tognun aftan í læri.“

Aðspurður út í framhaldið hjá hans liði stóð ekki á svari.

„Við erum að fara í hörkuleik næst á móti KR á sunnudaginn og það verður bara gaman. Við þurfum bara að taka þetta einn leik í einu og ná í sigra,“ sagði Baldur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira