Körfubolti

Jón Axel spilaði í 58 mínútur í fjórframlengdum spennutrylli í háskólaboltanum í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson í leik með Davidson.
Jón Axel Guðmundsson í leik með Davidson. Getty/M. Anthony Nesmith

Jón Axel Guðmundsson og félagar í Davidson þurftu að sætta sig við tap á móti  George Washington eftir fjórframlengdan leik í bandaríska háskólaboltanum í nótt.

Jón Axel spilaði í 58 mínútur af 60 mögulegum í þessum ótrúlega leik. Hann spilaði mest allra í sínu liði.

Venjulegur leiktími er 40 mínútur og spilaði Jón Axel því næstum því einn og hálfan leik.



Jón Axel var með 31 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar í leiknum. Hann tók 29 skot utan af velli og hitti úr 11 þeirra. Jón setti einnig niður 6 af 11 vítum.

Jón Axel var efstur í sínu liði í stigum, fráköstum og stoðsendingum en hann tók líka flest skot og fékk flest víti.

Jón Axel spilaði allar 20 mínúturnar í boði í framlengingunum fjórum og var með 10 stig og 2 fráköst á þeim. Hann kom Davidson yfir í bæði fyrstu og annarri framlengingu en  George Washington tókst að tryggja sér aðra framlengingu í bæði skiptin.

Davidson var búið að vinna þrjá leiki í röð fyrir leikinn í nótt en Jón Axel hefur nú skorað 20 stig eða meira í fjórum síðustu leikjum liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×