Enski boltinn

Hefur elskað Man. United síðan hann sá Ronaldo spila með liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bruno Fernandes skrifar undir samning sinn við Manchester United sem er til 2025.
Bruno Fernandes skrifar undir samning sinn við Manchester United sem er til 2025. Mynd/Twitter/@ManUtd

Portúgalinn Bruno Fernandes varð í gær leikmaður Manchester United og segist ætla að gera allt til þess að vinna titla með félaginu.

Bruno Fernandes skrifaði undir fimm og hálfs árs samning við félagið en Manchester United keypti hann frá Sporting Lisbon. Þaðan hafa líka komið landar hans Cristiano Ronaldo og Nani sem báðir slógu í gegn hjá Manchester United og þá sérstaklega Ronaldo.

Það eru miklar væntingar bundnar við Bruno Fernandes og það að hann komi frá sama stað og Cristiano Ronaldo gerir ekkert annað en að ýta undir þær.

„Það er ótrúleg tilfinning sem fylgir því að ég sé að fara að spila fyrir Manchester United,“ sagði Bruno Fernandes.



„Ég hef elskað Manchester United síðan að ég horfði á Cristiano Ronaldo spila fyrir liðið. Síðan þá hefur ég verið mikill aðdáandi þessa frábæra klúbbs,“ sagði Fernandes.

„Ég hef lagt mikið á mig til að komast hingað og ég ætla að lofa stuðningsmönnum félagsins því að ég mun gefa allt mitt til að hjálpa liðinu að ná betri árangri og vinna titla,“ sagði Fernandes.

Fernandes kom til Sporting Lisbon frá Sampdoria fyrir 7,2 milljónir punda árið 2017. Hann hefur skorað 64 mörk í 137 leikjum í öllum keppnum fyrir Sporting og er búinn að leggja upp mikið líka.



Hann var kosinn leikmaður ársins í portúgölsku deildinni undanfarin tvö tímabil. Hann var í portúgalska landsliðinu sem vann Þjóðadeildina síðasta sumar og á að baki nítján landsleiki.

„Mörk og stoðsendingar Bruno tala sínu máli. Hann verður frábær viðbót við okkar lið og mun hjálpa okkur á seinni hluta tímabilsins. Við höfum verið að fylgjast með Bruno í marga mánuði og hann hefur heillað alla hér með hæfileikum sínum og því sem hann getur komið með inn í liðið,“ sagði Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United.

„Það sem skiptir svo mestu máli er að hann er frábær manneskja með skemmtilegan persónuleika og það sjá allir að þetta er leiðtogi,“ sagði Solskjær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×