Tónlist

Damon Albarn heldur tónleika í Hörpu í sumar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Albarn kemur fram í Hörpunni í sumar.
Albarn kemur fram í Hörpunni í sumar. vísir/getty/Chiaki Nozu

Söngvarinn, lagahöfundurinn og tónskáldið Damon Albarn flytur nýja verkið sitt The Nearer the Fountain, More Pure the Stream Flows í heild sinni í Eldborg, Hörpu 12. júní 2020. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Senu.

Damon hefur verið tíður gestur á Íslandi í tæplega þrjá áratugi og hefur á þessum tíma verið innblásinn af náttúru þess og landslagi.

Nýja verkið hans er afleiðing af þessari ást hans á Íslandi og mun hann flytja þetta mjög svo persónulega verk með hópi tónlistarmanna og umgjörðin byggir á sérhönnuðu sjónlistaverki. Tónleikarnir eru hans fyrstu á Íslandi í 23 ár. Albarn sló fyrst í gegn með sveitinni Blur á sínum tíma.

Albarn tjáir sig um komandi tónleika í samtali við Morgunblaðið í morgun og segir: „Sjón­ar­horn­in eru sí­fellt að breyt­ast hérna. Stund­um er loftið ótrú­lega tært og kyrrt – og Snæ­fells­jök­ull beint fyr­ir fram­an mig! Þarna,“ seg­ir hann og bend­ir norður yfir Faxa­fló­ann en eins og áður segir hefur Albarn eytt miklu tíma hér á landi.

„Hann blas­ir oft við með öll­um sín­um smá­atriðum. Stund­um finnst mér hann vera svo nærri að það er eins og topp­ur­inn gnæfi yfir okk­ur hér. En í önn­ur skipti, eins og núna, þá byrg­ir veðrið sýn, snjór eða regn. Glugg­arn­ir hér eru eins og lins­ur sem bein­ast að heill­andi nátt­úr­unni.“

Albarn bætir við: „Þetta er ís­lenska verkið mitt og auðvitað verðum við líka að flytja það hér! Annað kæmi ekki til greina. Það er ljóð um líf mitt hér, ná­kvæm­lega hér.“ 

The Nearer the Fountain, More Pure the Stream Flows var skrifað og samið að fullu á Íslandi. Nafnið er fengið frá ljóðinu Love and Memory eftir John Clare.

Miðasala hefst 31. janúar klukkan 12 og er miðaverðið frá 7990 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×