Handbolti

Viktor Gísli varði flest víti á EM: Vargas náði bara að jafna hann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson fagnar einu af þremur vítum sem hann varði á móti Slóveníu.
Viktor Gísli Hallgrímsson fagnar einu af þremur vítum sem hann varði á móti Slóveníu. EPA-EFE/JOHAN NILSSON

Gonzalo Pérez de Vargas markvörður Evrópumeistara Spánar tókst ekki að komast upp fyrir Viktor Gísla Hallgrímsson í leikjunum um verðlaun á Evrópumótinu í handbolta sem lauk um helgina. Íslandi átti því markvörðinn sem varði flest víti á Evrópumótinu í ár.

Eftir að Viktor Gísli lauk keppni með íslenska landsliðinu með sjö varin víti í sjö leikjum þá fékk Vargas tvo leiki til að ná honum.

Gonzalo Pérez de Vargas var með sex víti varin eftir milliriðlana en fékk ekki á sig víti í undanúrslitaleiknum á móti Slóveníu og varði síðan „bara“ eitt víti í úrslitaleiknum á móti Króatíu.

Það þýddi að þeir Viktor Gísli og Gonzalo Pérez de Vargas, markvörður stórliðs Barcelona, deilda efsta sætinu yfir flest varin víti á öllu mótinu.

Viktor Gísli Hallgrímsson er aðeins nítján ára gamall og að keppa á sínum fyrsta stórmóti. Gonzalo Pérez de Vargas er nýorðinn 29 ára gamall og var að vinna verðlaun á fjórða Evrópumótinu í röð.

Viktor Gísli varð vítakast í fjórum af sjö leikjum sínum þar af þrjú víti á móti Slóvenum og tvö víti á móti Norðmönnum en þetta voru tvö af fjórum bestum liðum mótsins.

Viktor Gísli er í þriðja sætinu yfir bestu hlutfallsmarkvörsluna í vítum en þar er efstur Þjóðverjinn Johannes Bitter. Viktor Gísli var engu að síður með 44 prósent markvörslu í vítaköstum á mótinu.


Flest varin víti á EM 2020:
1. Viktor Gísli Hallgrímsson, Íslandi 7
1. Gonzalo Pérez de Vargas, Spáni 7
3. Roland Mikler, Ungverjalandi 6
4. Espen Christensen, Noregi 5
4. Viachaslau Saldatsenka, Hvíta Rússlandi 5
6. Johannes Bitter, Þýskalandi 4
6. Tomas Mrkva, Tékklandi 4

Hæsta hlutfall víta varða á EM 2020:
1. Johannes Bitter, Þýskalandi 50% (4 af 8)
2. Espen Christensen, Noregi 45% (5 af 11)
3. Viktor Gísli Hallgrímsson, Íslandi 44% (7 af 16)
4. Gerrie Eijlers, Hollandi 40% (2 af 5)
4. Edgars Kuksa, Lettlandi 40% (2 af 5)
4. Borko Ristovski, Norður Makedóníu 40% (2 af 5)
4. Márton Székely, Ungverjalandi 40% (2 af 5)

Varin víti hjá Viktori Gísla Hallgrímssyni eftir leikjum á EM 2020:
Á móti Dönum: 0 af 1 (0%)
Á móti Rússum: 1 af 1 (100%)
Á móti Ungverjum: 1 af 1 (100%)
Á móti Slóvenum: 3 af 6 (50%)
Á móti Portúgölum: 0 af 1 (0%)
Á móti Norðmönnum: 2 af 5 (40%)
Á móti Svíum: 0 af 1 (0%)Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.