Enski boltinn

Solskjær þakkaði markverði Tranmere fyrir að kveikja í sínu liði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær þakkaði markverði Tranmere fyrir að koma sínum leikmönnum upp á tærnar fyrir bikarleikinn í gær.
Ole Gunnar Solskjær þakkaði markverði Tranmere fyrir að koma sínum leikmönnum upp á tærnar fyrir bikarleikinn í gær. Getty/Gareth Copley

Markvörður Tranmere hefði betur sleppt því að tala niður til Manchester United í aðdraganda bikarleiksins um helgina.

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, sá sína menn skora fimm mörk í fyrri hálfleik og vinna 6-0 sigur á Tranmere í ensku bikarkeppninni í gær. Þetta var í fyrsta sinn síðan Solskjær var sjálfur leikmaður liðsins að Manchester United skorar svona mörg mörk fyrir hálfleik.

Eftir leikinn þakkaði norski stjórinn markverði Tranmere fyrir að kveikja í sínu mönnum fyrir leikinn.


Markvörðurinn heitir Scott Davies og hefur verið stuðningsmaður Manchester City frá barnæsku. Hann fór í viðtal fyrir leik helgarinnar en hefði kannski betur sleppt því.

Scott Davies talaði í viðtalinu um „endalok“ Manchetser United liðsins og að United-menn gætu ekki lengur litið niður á bláu nágranna sína í Manchester City.

Eftir leikinn þá virtist Scott Davies labba utan í Ole Gunnar Solskjær á leið þeirra af velli. Það virtist aðeins kveikja í Norðmanninum.

„Takk fyrir að hjálpa okkur að kveikja í stuðningsmönnunum og leikmönnunum,“ sagði Ole Gunnar Solskjær við Scott Davies í framhaldinu.

Hinn 32 ára gamli markvörður hló af orðum Solskjær en Norðmaðurinn fór eftir það í viðtöl við fjölmiðla.

„Leikurinn í dag var leikur, þar sem allir aðrir en stuðningsmenn United, vildu að við töpuðum. Það hefur verið talsverð pressa á leikmönnunum en við þeir nutu þess að spila í dag. Nú fá þeir nokkra daga hvíld og svo byrjuðum við á fullu að nýju. Hugarfarið var fullkomið, við vorum að spila á erfiðum velli en nálguðumst það á réttan hátt,“ sagði Solskjær.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.