Heimsmarkmiðin

Óttast faraldur beinbrunasóttar í Jemen

Heimsljós kynnir
Heilbrigðisstarfsmenn á vegum Barnaheilla - Save the Children að störfum í flóttamannabúðum í Jemen.
Heilbrigðisstarfsmenn á vegum Barnaheilla - Save the Children að störfum í flóttamannabúðum í Jemen. Save the Children

Fulltrúar Barnaheilla – Save the Children óttast að beinbrunasótt í Jemen geti verið upphaf faraldurs en rúmlega 52 þúsund tilfelli hafa verið skráð í landinu og staðfest eru 192 dauðsföll af völdum sóttarinnar. Af þeim sem hafa látist eru 78 börn.Beinbrunasótt (dengue) er veirusjúkdómur sem smitast með moskítóflugum og smit hafa verið skráð í flestum landshlutum Jemen á síðustu mánuðum. Flest tilfellin, eða um 60 prósent, hafa verið skráð í borgunum Hodeidah og Adan. „Ef ekki er gripið til ráðstafana, til þess að styðja við heilbrigðiskerfið og efla aðstöðu til þess að greina smit snemma, er hætta á að tala dauðsfalla hækki verulega,“ segir Guðrún Helga Jóhannsdóttir verkefnastjóri kynningarmála og erlendra verkefna.Að sögn hennar hafa átök í landinu og mikil úrkoma raskað vatnsbirgðum og vegna þessara truflana hefur fólk sjálft þurft að safna regnvatni. „Það hefur meðal annars stuðlað að útbreiðslu moskítóflugna á viðkomandi svæðum og leitt til aukinnar smithættu á beinbrunasótt,“ segir Guðrún Helga.Barnaheill – Save the Children hafa dreift sjúkrabirgðum á starfssvæði sín til þess að bregðast við beinbrunasóttinni og einnig er unnið markvisst að því að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu moskítóflugna og miðla þekkingu til heilbrigðisstarfsmanna um það hvernig bregðast eigi við beinbrunasóttinni.Guðrún Helga segir að vegna stöðugra átaka í Jemen síðastliðin fimm ár sé erfitt að bregðast skjótt við. Friður í landinu gæti tryggt enduruppbyggingu heilbrigðiskerfisins en það stendur frammi fyrir hruni þar sem meira en helmingi heilbrigðisstofnananna hefur verið lokað, meðal annars vegna þess að sjúkrahús hafa orðið fyrir loftárásum eða vegna þess að skortur er á nauðsynlegum lyfjum og hæfu starfsfólki.Nánar á vef Barnaheilla  Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.