Golf

Guð­rún Brá komin á Evrópu­móta­röðina: Var harð­á­kveðin að ná þessu í ár

Anton Ingi Leifsson skrifar

Íslendingar eiga tvo keppendur í Evrópumótaröð kvenna í golfi, LET-mótaröðinni á þessari keppnistíð. Valdís Þóra Hallgrímsdóttir var komin með keppnisréttinn. Íslandsmeistarinn, tvö síðastliðin ár, Guðrún Brá Björgvinsdóttir fylgir í kjölfarið.

Hún varð í 10-17. sæti á lokaúrtökumótinu á La Manga um helgina. Tvær aðrar hafa spilað í mótaröðinni, Ólöf María Jónsdóttir og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.

Arnar Björnsson ræddi við Guðrúnu Brá í dag.

„Ég var harðákveðin að ná þessu í ár og ég er ótrúlega ánægð að ég náði því,“ sagði Guðrún Brá við heimavöll sinn, Golfklúbbinn Keili.

„Ég er ótrúlega spennt fyrir komandi ári og komandi verkefnum. Þetta verður vonandi mjög gott ár,“ en dagskráin framundan er ansi þétt.

„Fyrsta mót er í Ástralíu 20. febrúar. Það er gaman að koma á nýja staði. Fyrstu tvö mótin verða þar og svo verðum við í Suður-Afríku, svo Sádi-Arabíu og svo verða mest megnis af mótunum í Evrópu í sumar sem er mjög þægilegt.“

Meiri peningur er komin í Evrópumótaröðina og Guðrún segir að þetta líti vel út.

„Þeir eru búnir að styrkja þetta mjög fyrir árið í ár. Það er komið aðeins meira verðlaunafé í mótið sem er frábært.“

„Þeir eru búnir að vera í smá vandræðum síðustu ár með styrktaraðila en þetta lítur út fyrir að vera á réttri leið núna.“

Guðrún er komin inn á Evrópumótaröðina og vill komast enn lengra en hún tekur því með rónni einni.

„Ég hef alltaf tekið eitt skref í einu. Nú hef ég náð þessu og get tékkað í það box. Svo er næsta skref LPGA en ég tek eitt skref í einu svo ég ætla að taka þetta skref fyrst.“

Nánari viðtal við Guðrúnu Brá má sjá hér að ofan þar sem hún ræðir meðal annars um föður sinn sem hjálpar henni mikið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.