Viðskipti innlent

Ferðamannafjöldinn til Íslands í fyrra sá þriðji mesti í sögunni

Kristján Már Unnarsson skrifar
Farþegar á leið um borð í flugvél á Keflavíkurflugvelli.
Farþegar á leið um borð í flugvél á Keflavíkurflugvelli. Mynd/Arnar Halldórsson.

Ferðamönnum fækkaði um fjórtán prósent á nýliðnu ári. Engu að síður reyndist það þriðja besta ferðamannaár sögunnar, en fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2.

Þetta má lesa úr tölum sem Ferðamálastofa birti í gær um brottfarir erlendra farþega um Keflavíkurflugvöll en samkvæmt þeim má áætla að rétt um tvær milljónir ferðamanna hafi heimsótt Ísland í fyrra. Aðeins tvö árin þar á undan reyndust stærri; 2,3 milljónir árið 2018 og tæplega 2,2 milljónir árið 2017.

Þótt tölurnar sýni fjórtán prósenta fækkun eru vísbendingar um að tekjur af ferðamönnum hafi minnkað hlutfallslega minna þar sem meðalferðamaðurinn hafi gist fleiri nætur og eytt meiru í Íslandsferðinni, að sögn Halldórs Arinbjarnarsonar, upplýsingafulltrúa Ferðamálastofu.

Aðeins eru taldir þeir erlendu ferðamenn sem fóru frá Keflavíkurflugvelli.Stöð 2/Arnar Halldórsson.

Tölurnar gefa ekki heildarmynd af ferðamannafjöldanum. Þannig sýna þær ekki brottfarir erlendra farþega frá öðrum flugvöllum, eins og í Reykjavík og á Akureyri, né fjölda þeirra sem fara með ferjunni Norrænu. Þær tölur breyta þó litlu þar sem milli 98 og 99 prósent ferðamanna fara um Keflavíkurflugvöll, að sögn Halldórs. 

Þá eru farþegar skemmtiferðaskipa ekki taldir með þar sem alþjóðlegir staðlar miða við að telja aðeins þá ferðamenn sem teljast gista í landinu.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Flug milli Kína og Keflavíkur hefst í vor

Fyrsta flug kínverska flugfélagsins Juneyao Air frá Sjanghæ til Íslands með viðkomu í Helsinki verður 31. mars næstkomandi. Flogið verður hingað tvisvar í viku út árið. Félagið áætlar 20 þúsund farþega á næsta ári. Miðaverð báðar leiðir er frá 68 þúsund krónum.

Markaðssetja þurfi vannýtt svæði á landsbyggðinni

Breytt samkeppnisstaða Íslands hefur valdið því að samsetning ferðamanna og ferðahegðun á Íslandi hefur tekið breytingum. Slíkar sveiflur hafa ekki síst þrengt að ferðaþjónustufyrirtækjum á landsbyggðinni.

Eyðslan minnkar höggið af fækkun ferðamanna í sumar

Ferðamönnum fækkaði um 17 prósent í júlí miðað við árið á undan. Framkvæmdastjóri SAF segir fækkunina skarpari en hann hefði viljað sjá. Sérfræðingur í greiningardeild Arion banka býst við að aukning í meðaleyðslu haldi áfram á næstunni. Verði það raunin mun það draga úr tekjutapi þjóðarbúsins.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.