Skoðun

Nýbúi - marsbúi

Tinna Sigurðardóttir skrifar

Nýlega sagði skólastjóri Seljaskóla, Magnús Þór Jónsson, frá því í viðtali að aldrei hafi fleiri tungumál verið töluð í skólum borgarinnar. Séu tölur frá Fjölmenningarsetri skoðaðar sést að fjölgun nema með annað tungumál er gríðarlega hröð sl. 10 ár eða svo og hefur skólakerfið engan veginn verið í stakk búið að taka við slíkri fjölgun. Um aldamót var talað um nýbúadeildir (reyndar finnst mér „nýbúi“ hræðilegt orð - minnir á „marsbúi“) en það voru skilgreindar deildir til að aðstoða nýja nemendur skólans að aðlagast skólanum.

Nú árið 2020 er þjónusta við þennan hóp í hrópandi ósamræmi við stöðu mála. Við sjáum tölur um hrakandi læsi, hrakandi árangur í PISA og að sjálfsögðu þarf að velta við öllum steinum. Við vitum líka að börn með annað tungumál en íslensku klára síður framhaldsskóla og þau sem það gera klára framhaldsskóla á mun lengri tíma eða 6 árum. Þetta eru ekki nýjustu tölur - nú er búið að stytta framhaldsskólann og má hver geta í eyðurnar hvernig það fer með viðkvæman hóp ungs fólks. Þá má ekki gleyma því að samkvæmt rannsóknum eru innflytjendur oft tekjulægri hópur en innfæddir og að sjálfsögðu getur það haft áhrif á stöðu barnanna. Ég ítreka því að um er að ræða verulega viðkvæman hóp.

Besta leiðin til að kenna mál?

Umræðan um íslensku „sem annað tungumál“ þvælist fyrir því að kenna þurfi íslensku - punktur. Mörg þeirra barna sem eiga fleiri en eitt móðurmál eru fædd hér á landi og hafa gengið í íslenska leikskóla. Þau læra málin samhliða. Ekki eitt á eftir öðru. Ekki fyrsta mál og annað mál heldur samhliða mál. Það að læra samhliða mál gæti reynst börnum miserfitt. Því þarf að nálgast börnin þannig. Það sem gagnast þessum hópi vel er einfalt námsefni og mikil endurtekning. Mikil samskipti. Mikið augnsamband. Mikil nærgætni. Að sýna þeim skilning, líka þegar þau tala „vitlaust“ er afar mikilvægt. Við viljum jú að þau nái að gera sig skiljanleg á sinni íslensku, jafnvel þótt hún sé ekki fullkomin. Það skiptir svo gríðarlega miklu máli að börnin fái jákvæða upplifun af því að tjá sig á íslensku. Að þau upplifi sig ekki vanmáttug í verkefnum skólans. Öll neikvæð upplifun mun tefja fyrir árangri þeirra í námi.

Gætirðu verið aðeins síðhærðari?

Okkur hættir öllum til að gera of miklar kröfur til barna. Við sættum okkur ekki við færni þeirra eins og hún er og finnst hún ekki nægileg eða ásættanleg. Við gleymum að vöxturinn og þroskinn getur oft ekki átt sér stað fyrr en við tökum pressuna af. Geturðu ekki verið aðeins hávaxnari? Aðeins bláeygðari? Aðeins síðhærðari? Þetta eru ekki sanngjarnar kröfur og við sjáum að þær eiga ekki við börn. En hvað með aðrar kröfur sem við gerum? Getur verið að þær séu ósanngjarnar? Eitt er að gera kröfur til barna en annað að krefjast einhvers af þeim sem þau eru ófær um að framkvæma. Þetta er lykilatriði í kennslu og uppeldi. Þegar við gerum kröfur til barna verðum við að hafa í huga að hver og einn mætir þeim á sínum forsendum sem eru ansi misjafnar.

Börnin okkar

Börnin okkar af erlendum uppruna verða að upplifa að þau sitji við sama borð og önnur börn. Þau þurfa að fá beina kennslu í íslensku af fagaðilum frá unga aldri. Þetta er lykilatriði.Lausnin felst meðal annars í því að efla og skilgreina íslenskukennslu inni á leikskólum sem og inn í nám leikskólakennara og leikskólaliða. Sérstaka fjárúthlutun fyrir leikskóla þar sem hlutfallið barna af erlendum uppruna er yfir 50%. Íslenskukennsla inni í fjölmenningarhópi er ekki það sama og málörvun - heldur íslenskukennsla. Þar sem við kennum orðin, ræðum þau, endurtökum þau, syngjum um þau, teiknum þau og gefum börnunum tækifæri á að tjá sig. Eflum sjálfsöryggi þeirra og kennum þeim að tjá sig um það sem þeim býr í brjósti við aðra, af öryggi. Listin að tala við börn er nefninlega ekki öllum eðlislæg og í blóð borin en allir geta tamið sér hana.

Öll börn í íslensku samfélagi eru börnin okkar, okkar eigin börn sem okkur ber að hlúa að og hjálpa, sama hvaðan þau koma. Við þurfum að standa saman í því að veita þeim alltaf það besta sem við, sama hvar við hittum þau.

Höfundur er talmeinafræðingur og framkvæmdastjóri Tröppu þjónustu

Tengd skjöl
Skoðun

Skoðun

Fylgir þú lögum?

Ugla Stefaníu Kristjönudóttir Jónsdóttir,Þorbjörg Þorvaldsdóttir skrifar

Skoðun

Ótti

Gunnar Dan Wiium skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.