Viðskipti innlent

Múlalundur ósáttur við grímukönnun ASÍ

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Múlalundur er vinnustofa SÍBS og er staðsettur við Reykjalund í Mosfellsbæ. Þar starfar fólk með skerta starfsorku.
Múlalundur er vinnustofa SÍBS og er staðsettur við Reykjalund í Mosfellsbæ. Þar starfar fólk með skerta starfsorku. vísir/vilhelm

Framkvæmdastóri vinnustofunnar Múlalundar segir nýlega verðkönnun ASÍ á grímum vera ranga. Verðið sem ASÍ greindi frá standist ekki skoðun, það sé í raun helmingi lægra. Talsmaður verðlagseftirlits ASÍ segir hins vegar ánægjulegt að sjá að Múlalundur hafi lækkað verðið á grímunum sínum - eftir heimsókn verðlagseftirlitsins.

ASÍ kynnti niðurstöður verðkönnunar sinnar í gær. Hún ber með sér töluverðan verðmun á einnota þriggja laga grímum milli fyrirtækja, en erfitt geti þó reynst að gera nákvæman samanburð vegna þess hve grímurnar eru mismunandi. Það væri þó engu að síður mat verðlagseftirlitsins að ódýrstu grímurnar sé finna í Costco, 42 krónur gríman, en það hæsta í Eirberg, 298 krónur gríman.

Í sömu könnun kom fram að Múlalundur byði 50 grímu pakka á 9498 krónur, eða 190 krónur fyrir hverja grímu. Sigurður Viktor Úlfarsson, framkvæmdastjóri Múlalundar, segir þessar tölur þó ekki halda vatni.

„Verð á sóttvarnargrímum á Múlalundi vinnustofu SÍBS er 950 kr. fyrir 10 grímur og 3.790 kr (95 kr. stk.) fyrir 50 grímur (75,2 kr. pr. stk.) og því ekkert svipað því sem fram kemur í verðalagskönnun ASÍ,“ skrifar Sigurður í yfirlýsingu til fjölmiðla.

Verð frá birgjum Múlalundar hafi „lækkað mjög undanfarna daga“ að sögn Sigurðar - „og vonandi tekst okkur að lækka okkar verð enn frekar á næstu dögum.“

Verðlækkunin ánægjuleg

Af svari Auðar Ölfu Ólafsdóttur, sem fer fyrir verðlagseftirliti ASÍ, til fréttastofu að dæma virðist eftirlitið hins vegar standa við sína könnun.

„Það er gott að heyra að Múlalundur hefur tækifæri til að lækka verð á grímunum sínum frá því sem það var þegar könnunin var framkvæmd,“ segir Auður og bætir við það væri ekkert einsdæmi.

„Við höfum séð að fleiri söluaðilar hafa lækkað verð á sínum grímum eftir könnunina og er það auðvitað ekkert nema jákvætt. Við hvetjum neytendur áfram til að vera vakandi fyrir verðlagi á grímum og gera verðsamanburð áður en þeir kaupa grímur.“

Auður ræddi könnunina meðal annars í Reykjavík síðdegis í gær og má hlusta á það hér að neðan.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×