Körfubolti

Sportpakkinn: „Við vorum bara þrælgóðir“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dominykas Milka átti enn einn stórleikinn í gær og þakkar hér Stólunum fyrir leikinn.
Dominykas Milka átti enn einn stórleikinn í gær og þakkar hér Stólunum fyrir leikinn. Mynd/S2 Sport

Keflvíkingar halda áfram sínu striki í baráttunni um deildarmeistaratitilinn í Domino´s deild karla og minnkuðu forskot Stjörnunnar í tvö stig með sigri á Tindastól í lokaleik tólftu umferðarinnar í gær. Guðjón Guðmundsson fjallar um leikinn í Sportpakkanum.

Eftir jafnan fyrri hálfleik þar sem var lítið um varnir tóku Keflvíkingar yfir leikinn í þriðja leikhlutanum þar sem þeir fóru á kostum og unnu leikhlutann 31-13.

Keflavíkurliðið náði mest átján stiga forystu í leiknum. Stólarnir náðu aðeins að minnka muninn í fjórða leikhluta en aldrei að ógna sigri heimamanna.

„Við vorum bara þrælgóðir og þéttir varnarlega. Það var nokkrum sinnum þar sem þeir voru að taka skot í lok skotklukkunnar og voru ráðþrota svolítið. Við vorum bara mjög flottir,“ sagði Hjalti Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, eftir leikinn.

„Við viljum ekki fá 95 stig á okkur og við viljum vera að ná stoppum líka. Við viljum treysta á varnarleikinn og erum því að fá allt of mikið af stigum á okkur. Við þurfum að bæta hann og þá erum við fínir,“ sagði Baldur Ragnarsson, þjálfari Tindastóls eftir leik.

Það má sjá alla umfjöllun Gaupa um leikinn hér fyrir neðan.

Klippa: Sportpakkinn: Keflvíkingar þrælgóðir í sigri á Stólunum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×