Enski boltinn

Lewandowski talar vel um Klopp: Þjálfari sem þú hleypur í gegnum eld fyrir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robert Lewandowski og Jürgen Klopp eftir að Liverpool sló Bayern München út úr Meistaradeildinni í fyrra.
Robert Lewandowski og Jürgen Klopp eftir að Liverpool sló Bayern München út úr Meistaradeildinni í fyrra. Getty/Chris Brunskill

Robert Lewandowski er einn besti framherji heims en það var hjá Borussia Dortmund og undir stjórn Jürgen Klopp þar sem hann fékk sitt fyrsta tækifæri utan Póllands.

Lewandowski talar mjög vel um þýska knattspyrnustjórann en Jürgen Klopp hefur síðan gert Liverpool að Evrópu- og heimsmeisturum og er á góðri leið með að enda 30 ára bið félagsins eftir sigri í ensku deildinni.

Jürgen Klopp var knattspyrnustjóri Borussia Dortmund þegar Lewandowski kom til félagsins 22 ára gamall árið 2010.

Lewandowski skoraði átta mörk á sínu fyrsta tímabili en flest komu þau eftir að hann hafði komið inn á sem varamaður. Þau hjálpuðu þó Dortmund að vinna þýska titilinn. Liðið vann síðan tvöfalt tímabilið á eftir.

„Ég gekk til liðs við Dortmund þegar ég var ungur leikmaður og það var ekki auðvelt í byrjun,“ sagði Robert Lewandowski í viðtali við Prawda Futbolu en það er sagt frá því á heimasíðu þýsku bundesligunnar.



„Augljóslega var Jürgen ekki faðir minn en að sumu leyti þá tók hann að sér það hlutverk. Hann var einn af aðalmönnunum á bak við þróun mína sem fótboltamanns og hann opnaði dyr heimsfótboltans fyrir mér,“ .Lewandowski

„Hann er með mikla persónutöfra og veit hvað þarf til að búa til rétta andrúmsloftið hjá sínu liði. Ofan á allt það kann hann að finna rétta jafnvægið á milli gríns og alvarlega athugasemda. Hann er þjálfari sem þú hleypur í gegnum eld fyrir,“ sagði Robert Lewandowski.

Robert Lewandowski skoraði alls 102 mörk og gaf 42 stoðsendingar sem leikmaður Jürgen Klopp en fór seinna til Bayern München og varð meðal annars markahæsti erlendi leikmaðurinn í sögu þýsku bundesligunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×