Körfubolti

Kvennalið KR styrkir sig með tveimur erlendum leikmönnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Taryn McCutcheon í leik með Michigan State háskólaliðinu á síðustu leiktíð en hún spilar í Vesturbænum í vetur.
Taryn McCutcheon í leik með Michigan State háskólaliðinu á síðustu leiktíð en hún spilar í Vesturbænum í vetur. Getty/G Fiume

KR hefur samið við leikstjórnandann Taryn McCutcheon frá Bandaríkjunum, og finnsku landsliðskonuna Anniku Holopainen um að leika með meistaraflokki kvenna í Domino´s deildinni á komandi leiktíð.

KR segir frá komu nýju erlendu leikmanna sinn á heimasíðu sinni en þar er einnig viðtal við þjálfarann um liðstyrkinn. Francisco Garcia tók við KR-liðinu af Benedikti Guðmundssyni í sumar.

Taryn McCutcheon er 165 sm á hæð og kemur frá Michigan State háskólanum í Bandaríkjunum. Taryn var lykil leikmaður og leikstjórnandi í liði MSU þar sem hún skoraði 9,4 stig og gaf 4,5 stoðsendingar að meðaltali í leik á ferli sínum með skólanum.  Enginn hefur gefið fleiri stoðsendingar í sögu kvennaliðs Michigan State eða 582 á fjórum árum.

Á síðasta ári sínu með Michigan State háskólaliðinu þá var Taryn McCutcheon með 10,8 stig og 3,7 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hún tók þátt í nýliðavali WNBA á þessu ári en var ekki valin.

Annika Holopainen er 27 ára finnsk landsliðskona en hún er 188 sm framherji sem hefur spilað með liðum á borð við Reims í Frakklandi, Gdansk í Póllandi og TSV Wasserburg í Þýskalandi. Annika lék með Old Dominion háskólanum í Bandaríkjunum.

Annika Holopainen spilaði í frönsku b-deildinni á síðustu leiktíð þar sem hún var með 8,9 stig og 3,8 fráköst að meðaltali í leik.

„Við vorum að leita að fjölhæfum leikmönnum sem gætu leyst nokkrar stöður á vellinum. Leikmönnum sem munu hjálpa okkur bæði varnar- og sóknarlega og bæta liðið. Ég tel að Taryn og Annika uppfylli þessi skilyrði, ég er mjög ánægður með þennan liðsstyrk,“ sagði Francisco Garcia, þjálfari KR, við heimasíðu KR.

„Taryn er traustur leikstjórnandi, snjöll, getur skorað en jafnframt góður varnarmaður. Hún var leiðtogi í sterku liði Michigan State,“ sagði Garcia.

„Annika er mjög fjölhæfur leikmaður sem getur spilað þrist, fjarka og fimmu. Hún er líka reynslumikil. Fyrir utan háskólaferil hennar, þá hefur hún spilað í erfiðri deild í Þýskalandi, þar sem hún spilaði líka í Eurocup, einnig hefur hún spilað í Póllandi og Frakklandi. Svo er hún í finnska landsliðinu. Hún mun gefa KR-liðinu mikinn karakter,“ sagði Garcia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×