Skoðun

At­vinnu­mál – mál málanna

Gauti Jóhannesson skrifar

Öflugt atvinnulíf er hverju sveitarfélagi nauðsynlegt. Undanfarna mánuði höfum við verið rækilega minnt á þessa staðreynd, áhrif kórónuveiru faraldursins hafa séð til þess. Ekki er síður mikilvægt að atvinnulífið sé fjölbreytt þannig að sem flestir geti fundið störf við hæfi. Í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi er full ástæða til bjartsýni hvað þetta varðar. Mikill vöxtur hefur einkennt ferðaþjónustu á svæðinu undanfarin ár og gistirýmum hefur fjölgað. Mikill fjöldi gesta kemur akandi á eigin vegum eða í hópferðum og sífellt fleiri skemmtiferðaskip heimsækja Seyðisfjörð, Djúpavog og Borgarfjörð eystri á ári hverju. Miklar væntingar eru gerðar til frekari uppbyggingar á flugvellinum á Egilsstöðum og ekki má gleyma reglulegum ferjusiglingum til Seyðisfjarðar. Laxeldið vex með ári hverju og ljóst að vægi þess í rekstri nýs sveitarfélags á eftir að skipta miklu í framtíðinni. Landbúnaðurinn á svæðinu stendur á gömlum grunni og margvíslegur iðnaður, þjónusta og menningarstarfsemi einnig. Hlutverk sveitarstjórnar hverju sinni er að styðja markvisst við atvinnulífið og stuðla að frekari uppbyggingu og fjölbreytni. Mikilvægt er að styðja þau fyrirtæki sem eru fyrir á svæðinu en ekki síður frumkvöðla, smáframleiðendur og nýsköpun og að allir eigi kost á stuðningi þar sem það á við. Með það fyrir augum leggur Sjálfstæðisflokkurinn áherslu á að í sameinuðu sveitarfélagi verði í boði skilvirk ráðgjöf á sviði atvinnumála með áherslu á samráð og samstarf og þannig stuðlað að fjölbreyttri atvinnuuppbyggingu til hagsbóta fyrir sveitarfélagið í heild.

Þegar þessu fordæmalausa tímabili lýkur þá er leiðin til baka vörðuð öflugri og fjölbreyttri sókn í atvinnumálum

Það ástand sem við nú búum við er tímabundið. Þegar þessu fordæmalausa tímabili lýkur þá er leiðin til baka vörðuð öflugri og fjölbreyttri sókn í atvinnumálum. Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í nýju sameinuðu sveitarfélagi eru tilbúnir að leggja sitt af mörkum. Settu X við D á kosningadaginn. Með samstilltu átaki íbúa, fyrirtækja og sveitarfélagsins er framtíðin björt.

Höfundur er sveitarstjóri Djúpavogshrepps og fyrsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins í nýju sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðar eystri, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×