Skoðun

EFLA allt um kring

Kolbrún Baldursdóttir skrifar

Fátt kemur orðið á óvart þegar kemur að stjórnsýslumálum. Í Reykjavík hefur hver skandallinn rekið annan undanfarin tvö ár þar á meðal vegna brota á innkaupareglum. Hver man ekki eftir braggamálinu? Nú hefur úrskurðarnefnd kærunefndar útboðsmála fellt úr gildi hönnunarsamkeppni sem Vegagerðin, Reykjavíkurborg og Kópavogsbær stóðu fyrir um hönnun brúar yfir Fossvog. Fimm hönnunar- og arkitektastofur af þeim ellefu sem ekki voru valdir í forvalið kærðu valið til kærunefndar útboðsmála sem hefur stöðvað keppnina tímabundið. Alls sendu sautján hönnunar- og arkitektastofur inn tillögur.

Alvarlegar athugasemdir eru gerðar í úrskurðinum við vinnubrögð Vegagerðarinnar og er hún, Reykjavíkurborg og Kópavogur skaðabótaskyld. Fram kemur í úrskurðinum að „Efla hf. hafi fengið óeðlilegt forskot á aðra þátttakendur. Jafnframt hafi einn dómnefdarmanna verið starfsmaður Eflu hf. og tiltekinn starfsmaður Vegagerðarinnar og starfsmaður Eflu hf. og tiltekinn starfsmaður Vegagerðarinnar, sem hafi staðfest ákvörðun dómnefndar um val þátttakenda, verið eigandi, stjórnarmaður og starfsmaður Eflu hf. þar til fyrir skömmu. Dómnefndin hafi því verið vanhæf til ákvarðanatöku í forvalinu“.

Efla hf.er stór viðskiptavinur borgarinnar. Reykjavíkurborg hefur greitt fyrirtækinu sem nemur á fjórða milljarð á 10 árum, alls tæpa 3,7 milljarða króna. Það gerir að meðaltali 300 milljónir á ári sem samsvarar árslaunum 6-10 sérfræðinga hjá Reykjavíkurborg.

Hvað sem þessu líður er vont að fá upplýsingar um að ekki sé farið eftir lögum um innkaup hvort heldur hjá ríki eða borg. Eftir að braggamálið kom fram í dagsljósið lofuðu borgaryfirvöld að laga til hjá sér í þessum málum sem höfðu greinilega verið í ólestri. Á fundi borgarráðs 7. febrúar 2019 samþykkti borgarráð tillögur um stjórnkerfisbreytingar. Meðal þeirra breytinga sem átti að gera var að auka hlutverk innkauparáðs.

Fulltrúi Flokks fólksins mun óska eftir upplýsingum um hvað þessi mistök í útboðsmálum munu kosta borgarbúa. Í þessu máli er alla vega víst að Reykjavíkurborg ber ákvarðanaábyrgð og skaðabætur greiðast úr vasa útsvarsgreiðenda.

Höfundur er borgarfulltrúi Flokks fólksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×