Skoðun

Samferða í 50 ár - Álverið í Straumsvík og Hafnarfjörður

Helga Ingólfsdóttir skrifar

Það eru blikur á lofti varðandi framtíð Álversins í Straumsvík sem hefur verið einn af stærstu vinnustöðum Hafnarfjarðar í hálfa öld. Álverið er verðmætur vinnustaður fyrir okkur öll sem samfélag og verðmætur kaupandi af vistvænni orku sem þarf til framleiðslunnar.

Verð á raforku og dreifingarkostnaði þarf að vera gagnsætt og byggt á þeim grunni að Ísland verði til framtíðar samkeppnishæft við önnur lönd í Evrópu. Horfa þarf til umhverfissjónarmiða og nýtingar á grænni orku sem til lengri tíma litið hlýtur að skila sér í hagkvæmni fyrir framleiðendur og umhverfið.

Miklu skiptir að mótuð verði stefna í verðlagningu á raforku til stórnotenda sem styður við áframhaldandi starfsemi þeirra fyrirtækja sem þegar eru hér starfrækt og skila umtalsverðum tekjum til orkusala og í formi skatta, launa og þjónustukaupa.

Að hafa aðgang að vistvænni orku eins og við búum að er ómetanlegt fyrir okkur íslendinga og það skiptir auðvitað miklu máli að þessi vara sé verðlögð þannig að hún skili okkur góðum arði en þá þurfum við líka að lesa rétt í markaðsaðstæður með hagsmuni allra hagaaðila að leiðarljósi.

Álverið í Straumsvík er okkar fyrsta stóriðja og grundvöllur þess að Landsvirkjun var stofnuð og bygging Búrfellsvirkjunar hófst. Álverið hefur ávallt verið vinsæll vinnustaður þar sem aðbúnaður starfsfólks er góður og tækifæri starfsfólks til þess að bæta við sig menntun er til fyrirmyndar en margir hafa útskrifast frá Stóriðjuskólanum.

Þegar horft er til framtíðar þarf að leita nýrra tækifæra til þess að koma okkar verðmætum sem felast í umhverfisvænni raforku í verð. Við eigum að vinna að því að auka sjálfbærni á sem flestum sviðum til þess að treysta stoðir atvinnulífisins en lokun álversins í Straumsvík með tilheyrandi tekjutapi og afleiddum kostnaði fyrir samfélagið myndi ekki flýta fyrir þeirri þróun.

Höfundur er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.