Formúla 1

Fyrsti Formúlu 1-ökuþórinn greinist með veiruna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sergio Pérez endaði í 7. sæti í ungverska kappakstrinum um þarsíðustu helgi.
Sergio Pérez endaði í 7. sæti í ungverska kappakstrinum um þarsíðustu helgi. getty/Peter Fox

Mexíkóski ökuþórinn Sergio Pérez er með kórónuveiruna og tekur því ekki þátt í breska kappakstrinum um helgina. Hann er við góða heilsu en er í sóttkví ásamt öðrum sem hann hefur átt náið samneyti við.

Pérez er fyrsti ökuþórinn sem greinist með kórónuveiruna síðan keppni í Formúlu 1 hófst á ný fyrr í þessum mánuði.

Pérez keppir fyrir Racing Point. Í fyrstu þremur keppnum tímabilsins lenti hann tvisvar sinnum í 6. sæti og einu sinni í því sjöunda.

Þjóðverjinn Nico Hülkenberg tekur stöðu Pérez og keppir fyrir Racing Point ásamt Lance Stroll. Hülkenberg þekkir vel til hjá Racing Point en hann keppti fyrir liðið 2012 og 2014-16, þegar það hét Force India. Þeir Pérez kepptu saman 2014-16.

Hülkenberg keppti fyrir Renault 2017-19 en yfirgaf liðið eftir síðasta tímabil. Racing Point átti því möguleika á að hóa í hann til að fylla skarð Pérez. Þjóðverjinn tók þátt í æfingu í morgun.

Tvær næstu keppnir tímabilsins fara fram á Silverstone-brautinni í Englandi. Heimsmeistarinn Lewis Hamilton er efstur í keppni ökuþóra með 63 stig, fimm stigum á undan félaga sínum hjá Mercedes, Valtteri Bottas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×