Handbolti

Haukur ristarbrotinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Haukur varð Íslandsmeistari með Selfoss í fyrra.
Haukur varð Íslandsmeistari með Selfoss í fyrra. vísir/vilhelm

Selfyssingurinn Haukur Þrastarson, leikmaður Kielce í Póllandi, er ristarbrotinn og verður frá í nokkra mánuði.

„Ég er með álagsbrot í ristinni og fór í aðgerð um daginn þar sem pinni var settur í fótinn. Nú er ég bara að bíða eftir því að geta byrjað að æfa aftur,“ sagði Haukur í samtali við Vísi í morgun.

Hann segir óvíst hversu lengi hann verði frá keppni vegna meiðslanna.

„Maður hefur fengið mismunandi skilaboð varðandi það. En ég hugsa að þetta verði líklegast þrír mánuði,“ sagði Haukur.

Hann er nýkominn út til Kielce þar sem hann hefur atvinnumannaferil sinn. Hann skrifaði undir þriggja ára samning við pólsku meistarana í nóvember á síðasta ári.

„Þetta er mjög leiðinlegt. Ég fór í aðgerð heima fyrir tveimur vikum og kom út síðasta laugardag. Við erum búin að fá íbúðina og erum að koma okkur ágætlega fyrir,“ sagði Haukur.

Kielce hefur átt í talsvert miklum fjárhagsvandræðum en stærsti styrktaraðili félagsins, VIVE, stökk frá borði í sumar.

„Ég hef ekkert orðið var við það og mín mál eru klár,“ sagði Haukur sem var marka- og stoðsendingahæsti leikmaður Olís-deildar karla á síðasta tímabili.

Auk Hauks fékk Kielce samherja hans úr íslenska landsliðinu, Sigvalda Guðjónsson, í sumar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.