Viðskipti erlent

Segir Samherja aldrei hafa greitt SWAPO-flokknum

Birgir Olgeirsson skrifar
Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja.
Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja. Vísir/Vilhelm

Forstjóri Samherja segir fyrirtækið aldrei hafa greitt namibíska stjórnarflokknum Swapo fjármuni. Fullyrt er í namibískum fjölmiðlum að fyrirtækið hafi gert það árið 2017.

Hage Geingob forseti Namibíu boðaði til blaðamannafundar í gær þar sem hann sór af sér ásakanir þess efnis að flokkur hans hefði þegið styrki frá fyrirtækjum sem tengjast Samherjamálinu svokallaða. Sex fyrrverandi ráðherrar og einstaklingar í Namibíu eru grunaðir um fjársvik og mútuþægni. Samherji hefur verið sakaður um að greiða mútur til að komast yfir kvóta í Afríkulandinu.

Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra landsins og tengdasonur hans vilja losna úr varðhaldi gegn tryggingu. Dómstólar hafa tekið beiðni þeirra fyrir. Við réttarhöldin fullyrti namibískur rannsakandi að rannsókn málsins hefði leitt í ljós að meintar mútugreiðslur Samherja hefðu meðal annars fjármagnað kosningabaráttu Swapo.

Forseti Namibíu sagði þetta ekki rétt. Flokkurinn hefði aldrei fengið beinan styrk frá fyrirtækjum tengdum Samherja.

Namibíska dagblaðið The Nambian fullyrðir hins vegar í dag að flokkurinn hafi sannarlega fengið beina styrki frá dótturfélagi Samherja árið 2017. Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Samherja, segir í svari við fyrirspurn fréttastofu að Samherji hafi aldrei greitt Swapo-flokknum fjármuni, hvorki beint né í gegnum milliliði.

„Samherji hefur aldrei greitt Swapo-flokknum neina fjármuni, hvorki beint né í gegnum millilið. Þessi frétt The Namibian er því röng,“ segir í svari Björgólfs.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×