Viðskipti innlent

Hagar töpuðu 96 milljónum á Covid-lituðum ársfjórðungi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Verslanir Bónus eru undir hatti Haga.
Verslanir Bónus eru undir hatti Haga. Vísir/Vilhelm

Hagar töpuðu 98 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi ársins. Tekjuvöxtur var í dagvöruhluta Hagasamstæðunnar en samdráttur var í olíu-, bensín- og veitingasölu hjá Olís og í sérvöruverslunum. Félagið og dótturfélög þess fóru ekki varhluta af áhrifum Covid-19 faraldursins.

Í tilkynningu til Kauphallar segir að vörusala fyrstu þrjá mánuði ársins hafi numið 28.241 milljónum króna, samanborið við 28.590 milljónir króna árið áður. Söluminnkun tímabilsins milli ára er 1,2 prósent. Þar munar mikið um söluminnkun hjá Olós en hún var 26 prósent á milli tímabila.

Þó varð söluhækkun í verslana- og vöruhúsahluta samstæðunnar um 11 prósent. Framlegð félagsins var 5.829 milljónir króna, samanborið við 6.432 milljónir króna árið áður eða 20,6 prósent framlegð samanborið við 22,5 prósent á fyrra ári.

Gengisfall íslensku krónunnar og mikil lækkun á heimsmarkaðsverði olíu á tímabilinu, auk verðhækkana frá birgjum, höfðu mikil áhrif á framlegð, að því er segir í tilkynningunni.

Tap tímabilsins eftir skatta nam 96 milljónum króna, sem jafngildir 0,3 prósent af veltu en hagnaður eftir skatta á fyrra ári var 665 milljónir króna eða 2,3 prósent af veltu.

„Fyrstu þrír mánuðir rekstrarársins eru undir áætlunum enda fóru Hagar og dótturfélög þess ekki varhluta af áhrifum COVID-19 faraldursins. Áhrifa fór að gæta í mars en áhrifin á félög innan samstæðunnar eru ólík eftir starfsemi þeirra. Tekjuvöxtur var í dagvöruhluta samstæðunnar en samdráttur í olíu-, bensín- og veitingasölu hjá Olís og í sérvöruverslunum. Gengisfall íslensku krónunnar og sú lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu sem átti sér stað á tímabilinu hafði áhrif á framlegð og þá voru verðhækkanir birgja töluverðar,“ segir í tilkynningunni.

Þrátt fyrir þetta sé félagið vel í stakk búið til að takast á við þær aðstæður sem skapast hafa vegna faraldursins, efnahags- og lausafjárstaða félagsins sé sterk.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Engar hækkanir skráðar í dag

Mesta lækkun dagsins


Engar lækkanir skráðar í dag
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.