Skoðun

Ís­lands hundrað ár

Gunnar Hnefill Örlygsson skrifar

Í dag er sérstakur dagur, dagur sem ber að fagna, þennan dag 19. júní 1915, var unninn mikill baráttusigur og lagður grunnur að kosningarétti kvenna og vinnumanna. Kosningaréttur sem til fulls varð jafngildur á við kosningarétt karlmanna fyrir hundrað árum, árið 1920. Það kann að virðast skrítið fyrir mörg okkar sem yngri erum, að ímynda sér þann veruleika þar sem ekki þótti eðlilegt að konur og vinnumenn hefðu jafnan kosningarétt á við karla. Það eru ekki nema hundrað ár síðan sú var raunin. Í samhengi við mannkynssöguna, eru hundrað ár ekki langur tími.

En breytingar koma ekki af sjálfdáðum, að þeim þarf að vinna, að þeim þarf að stefna. Mér er mjög minnisstæð sú frásögn Harðar Torfasonar, sem ungur maður hafði hann verið eltur úti á götum og grýttur, fyrir það eitt að fella hug til eigin kyns, sem hann upplýsti þjóðina um, í viðtali sem tekið var við hann þennan dag 19. júní 1975.

Eftir mikla réttindabaráttu hefur viðhorf í garð samkynheigðra batnað svo um munar. Í dag eigum við forseta sem tekur á móti öðrum þjóðhöfðingjum með regnbogaarmband á úlnliðnum til stuðnings baráttu samkynheigðra.

Hér á plánetunni okkar er til fólk, sem með stríðsátökum og hörmungum er hrakið af sínu heimili. Leggur land undir fót við erfiðar aðstæður, leitandi skjóls og ratar jafnvel undan hrakningum hingað til Íslands í leit að öryggi og friði. Í dag eigum við forseta, þann eina sem opnað hefur sínar dyr og tekið á móti flóttafólki á Bessastöðum.

Við ýmis tilefni þar sem forseti okkar kemur sem þjóðhöfðingi, hlýðir hann á hæfileikaríka einstakinga sem fram úr skara og fagnar þeim. Í dag eigum við forseta sem horfir yfir hópinn og vill líka hvetja þá sem aftast eru og segja: þú getur þetta.

Guðni hefur sannað það í verkum sínum og gjörðum að hann er forseti mannréttinda.

Þó að þjóðsöngur okkar segi: „Íslands þúsund ár“, þá líkt og með kosningarétt kvenna, er margt sem getur breyst á hundrað árum. Þá er margt sem getur breyst á einu kjörtímabili.

Ég kýs forseta mannréttinda, ég kýs einstakling sem ég er stoltur af að kalla vin minn og forseta minn, ég kýs Guðna Th. Jóhannesson.

Leggjum okkar lóð á vogarskálarnar, nýtum okkar lýðræðislega rétt, sem ekki hefur alltaf verið öllum sjálfgefinn. Mætum á kjörstað og skilum okkar atkvæði. Þinn vilji skipir máli.

Höfundur er stuðningsmaður Guðna Th. Jóhannessonar forseta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×