Handbolti

Þjóðverjar heimsækja Þóri í Þrándheimi í desember

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þórir Hergeirsson stefnir á að vinna Evrópumótið í fjórða sinn á heimavelli í desember.
Þórir Hergeirsson stefnir á að vinna Evrópumótið í fjórða sinn á heimavelli í desember. Getty/Baptiste Fernandez

Í morgun var dregið í riðla fyrir Evrópumót kvenna í handbolta sem fram fer 3. til 20. desember í Danmörku og Noregi. Það er því ljóst að lið Þjóðverja mæta liði Þóris Hergeirssonar í Þrándheimi.

Undankeppni EM kvenna var einfaldlega aflýst vegna kórónufaraldursins og sæti veitt eftir árangri liðanna á síðustu Evrópumóti. Það eru því sömu 16 lið sem taka þátt á EM í desember og tóku þátt á mótinu árið 2018 þar sem Frakkar fögnuðu sigri eftir þriggja marka sigur, 24-21, á Rússum.

Evrópumeistarar Frakka eru með Danmörku, Slóveníu og Svartfjallaland í A-riðli. Í B-riðli er silfurlið Rússa ásamt Spáni, Svíþjóð og Tékklandi. Í C-riðli eru svo ríkjandi heimsmeistarar Hollands ásamt Króatíu, Serbíu og Ungverjalandi.

Að lokum er D-riðill skipaður Noregi, Póllandi, Rúmeníu og Þýskalandi. Fer sá riðill fram í Þrándheimi en það er ljóst að Þórir Hergeirsson stefnir á enn einn titilinn á heimavelli í desember.

Undir stjórn Þóris hefur norska liðið unnið Ólympíuleikana einu sinni, orðið heimsmeistari tvisvar og Evrópumeistarar þrisvar.

A-riðill

Danmörk

Frakkland

Slóvenía

Svartfjallaland

B-riðill

Rússland

Spánn

Svíþjóð

Tékkland

C-riðill

Holland

Króatía

Serbía

Ungverjaland

D-riðill

Noregur

Pólland

Rúmenía

Þýskaland




Fleiri fréttir

Sjá meira


×