Körfubolti

Bandaríski landsliðsþjálfarinn segir Trump forseta vera hugleysingja og fábjána

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gregg Popovich hefur þjálfað bandaríska landsliðið undanfarin ár auk þess að stýra liði San Antonio Spurs.
Gregg Popovich hefur þjálfað bandaríska landsliðið undanfarin ár auk þess að stýra liði San Antonio Spurs. EPA-EFE/ADAM S DAVIS

Gregg Popovich hefur oft gagnrýnt Donald Trump Bandaríkjaforseta en nú er hann búinn að fá alveg nóg af forsetanum sínum eftir viðbrögð Trump við því sem er í gangi í landinu eftir að blökkumaðurinn George Floyd dó eftir harða og ómanneskjulega meðferð hjá hvítum lögreglumanni.

Gregg Popovich er einn sigursælasti og virtasti þjálfari í sögu NBA deildarinnar í körfubolta og núverandi þjálfari bandaríska landsliðsins í körfubolta.

Gregg Popovich mætti til Dave Zirin hjá The Nation og las pistillinn yfir Bandaríkjaforseta sem hann bæði kallaði hugleysingja og ruglaðan fábjána.

„Ef Trump væri með heila, jafnvel þótt að það væri 99 prósent kaldhæðni, þá myndi hann segja eitthvað til að sameina fólkið. Hann hefur bara engan áhuga á að sameina þjóðina. Ekki einu sinni núna. Það sýnir hversu ruglaður hann er. Þetta snýst allt um hann sjálfan. Þetta snýst allt um það hvað hann græðir persónulega. Þetta hefur aldrei snúist um almannaheill og þannig hefur þetta alltaf verið,“ sagði Gregg Popovich.

Gregg Popovich hefur gert San Antonio Spurs fimm sinnum að NBA-meisturum og verið þrisvar sinnum kosinn besti þjálfari ársins í NBA. Undir hans stjórn hefur Spurs-liðið unnið 1245 deildarleiki og 170 leiki í úrslitakeppninni.

„Það er svo augljóst hvað þarf að gerast. Við þurfum forseta til að koma fram og segja einfaldlega að líf svarta skipti máli („black lives matter“). Hann þarf bara að segja þessi þrjú ár. Hann mun ekki gera það og getur það ekki. Hann getur það ekki af því að það er mikilvægara fyrir hann að blíðka sinn litla stuðningsmannahóp sem hallast undir geðveiki hans,“ sagði Gregg Popovich.

„Þetta snýst samt um meira en Trump. Allt kerfið þarf að breytast,“ sagði Popovich en hann var ekki búinn að fá nóg af því að drulla yfir Donald Trump.

„Hann sundrar ekki bara heldur er hann líka skemmdarvargur. Þú deyrð í návist hans. Hann mun éta þig lifandi til að ná fram sínum markmiðum. Mér ofbýður að við höfum leiðtoga sem getur ekki sagt að líf svartra skipti máli. Þess vegna felur hann sig í kjallara Hvíta hússins. Hann er hugleysingi. Hann býr til kringumstæður og hleypur síðan í burtu eins og smákrakki. Ég held að það sé best að láta eins og hann sé ekki þarna. Það er ekkert sem hann getur gert sem mun laga ástandið af því að hann er bara ruglaður fábjáni,“ sagði Gregg Popovich.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.