Körfubolti

KR bað leikmenn um þolinmæði: „Tilboðið sem ég bauð Hildi ekki nálægt því sem Valsmenn buðu“

Sindri Sverrisson skrifar
Hildur Björg Kjartansdóttir var frábær fyrir KR en er nú komin í herbúðir Vals.
Hildur Björg Kjartansdóttir var frábær fyrir KR en er nú komin í herbúðir Vals. VÍSIR/BÁRA

Böðvar Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR, segir að á þeim óvissutímum sem nú ríki hafi félagið ekki getað boðið Hildi Björgu Kjartansdóttur nálægt því eins góðan samning og hún hafi fengið hjá meisturum Vals.

„Að vera að semja við leikmann núna er eitthvað sem að mér finnst pínu skrýtið,“ sagði Böðvar í viðtali við Henry Birgi Gunnarsson í Sportinu í dag. Þar sagði Böðvar ljóst að erfitt hefði verið síðustu vikur að gera skuldbindingar, í ljósi þess að KR hefði orðið af 15-20 milljónum króna þegar úrslitakeppnin var blásin af vegna kórónuveirufaraldursins.

„Við erum búin að ræða málið við þá leikmenn sem eru núna í KR, í meistaraflokki karla og kvenna, og ég hef beðið fólk um að sýna þolinmæði, sem það hefur gert,“ sagði Böðvar, en Hildur skrifaði undir samning hjá Val þann 13. maí.

„Ég sendi inn tilboð á Hildi um þessa helgi (9.-10. maí), og svo í vikunni er blaðamannafundur á Híðarenda þar sem er tilkynnt um hennar komu. Tilboðið sem ég bauð Hildi var náttúrulega ekki nálægt því sem að Valsmenn buðu, og því fór sem fór. Hildur er atvinnukona og hún reyndist félaginu gríðarlega vel. Hún er frábær persónuleiki innan vallar sem utan og ég óska henni bara alls hins besta,“ sagði Böðvar.

En hvað um það sem Hildur sagði, að hún hefði í raun sjálf þurft að hafa samband við KR til að vita hver vilji félagsins væri varðandi hennar mál?

„Ég var nú reyndar í samskiptum við umboðsmann hennar, þar sem að öll samskipti frá byrjun hafa farið í gegnum umboðsmanninn. Það var eitthvað sem að Hildur vildi sjálf,“ sagði Böðvar, sem í dag kynnti Francisco Garcia sem nýjan þjálfara kvennaliðs KR.

Klippa: Sportið í dag - Böðvar tjáir sig um brotthvarf Hildar

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir

Kanóna til Vals frá KR

Valskonur hafa fengið mikinn liðsstyrk fyrir næstu körfuboltaleiktíð því Hildur Björg Kjartansdóttir hefur skrifað undir samning við Hlíðarendafélagið.

Darri Freyr og Francisco Garcia taka við KR-liðunum

Darri Freyr Atlason og Spánverjinn Francisco Garcia verða þjálfarar meistaraflokka KR í Domino´s deildum karla og kvenna í körfubolta á næsta tímabili. Brynjar Þór Björnsson skrifaði undir tvo samninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×