Körfubolti

Hildur fékk ekkert á hreint hjá KR og leitaði annað

Sindri Sverrisson skrifar
Hildur Björg Kjartansdóttir ræddi við Henry Birgi í Sportinu í dag.
Hildur Björg Kjartansdóttir ræddi við Henry Birgi í Sportinu í dag. MYND/STÖÐ 2 SPORT

Vegna óvissunnar sem ríkir hjá körfuknattleiksdeild KR og vegna þess að félagið kom ekki með klárt tilboð á borð til hennar, ákvað Hildur Björg Kjartansdóttir að róa á ný mið.

Hildur Björg skrifaði í gær undir samning við Val og þar með verða tvær bestu körfuknattleikskonur landsins, alla vega að flestra mati, sameinaðar á Hlíðarenda þar sem Helena Sverrisdóttir verður spilandi aðstoðarþjálfari.

Benedikt Guðmundsson landsliðsþjálfari tilkynnti í byrjun vikunnar að hann væri hættur sem þjálfari KR og er hann tekinn til starfa hjá Fjölni. KR er því án þjálfara sem stendur og það hafði áhrif á ákvörðun Hildar sem fékk reyndar fá svör í Vesturbænum varðandi framtíðina:

„Það voru margir klúbbar í sambandi við mig og ég var í rauninni svolítið lengi að heyra frá KR. Það var ekki fyrr en ég hafði sjálf samband við þá. Það er mikil óvissa varðandi þjálfaramál og leikmannahópinn, og ég fékk einhvern veginn aldrei neitt á hreint um hvað myndi verða. Ég var kominn á þann stað með öðrum liðum að ég ákvað að ganga frá því. Það var það besta í stöðunni fyrir mig í dag,“ sagði Hildur við Henry Birgi Gunnarsson í Sportinu í dag.

Þannig að í raun voru KR-ingar of seinir til að bjóða þér upp á eitthvað? „Já, ég myndi segja það.“

Klippa: Sportið í dag - Hildur um þá ákvörðun að fara í Val frá KR

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×