Handbolti

Íslenskir liðsfélagar hjá Vendsyssel næsta vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steinunn Hansdóttir með Vendsyssel treyjuna sem hún mun spila í á næsta tímabili.
Steinunn Hansdóttir með Vendsyssel treyjuna sem hún mun spila í á næsta tímabili. Mynd/Vendsyssel Håndbold

Íslenska landsliðskonan Steinunn Hansdóttir gerir tveggja ára samning við Vendsyssel en danska félagið segir frá þessu á fésbókarsíðu sinni.

Steinunn Hansdóttir er þar með orðin liðsfélagi landsliðsmarkvarðarins Elínar Jónu Þorsteinsdóttur sem hefur spilað með liðinu undanfarin tímabil.

Steinunn er vinstri hornamaður og kemur frá Gudme HK. Steinunn hefur spilað lengi í Danmörku og var áður hjá Horsens og Skanderborg. Hún spilaði síðasta á Íslandi með Selfossi.

Steinunn mun deila vinstri hornastöðunni með hinni dönsku Idu-Louise Andersen.

„Við höfum fundið fullkomin félaga fyrir Idu í vinstra horninu. Steinunn hefur komið mér mjög á óvart og hún er einstök stelpa. Hennar gildi eru þau sömu og okkar gildi og það sem við stöndum fyrir hjá Vendsyssel. Hún mun koma með margt inn í liðið eins og hraða og baráttu auk þess að gefa okkur fleiri möguleika í varnarleiknum. Hún mun einnig koma með meiri reynslu inn í liðið og hjálpa okkur að ná betra jafnvægi innan hópsins. Ég er mjög ánægður þjálfari í dag,“ sagði Kent Ballegaard, þjálfari Vendsyssel.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.