Viðskipti innlent

Lánshæfi ríkissjóðs metið gott og horfur stöðugar

Kjartan Kjartansson skrifar
Fjármálaráðuneytið greinir frá lánshæfiseinkunn ríkissjóðs samkvæmt S&P Global Ratings.
Fjármálaráðuneytið greinir frá lánshæfiseinkunn ríkissjóðs samkvæmt S&P Global Ratings. Vísir/Vilhelm

Ríkissjóður fær sterka lánshæfiseinkunn hjá alþjóðlega matsfyrirtækinu S&P Global Ratings sem metur horfur á Íslandi stöðugar. Fyrirtækið býst við 7,5% samdrætti á Íslandi á þessu ári vegna neikvæðra áhrif kórónuveirufaraldursins á ferðaþjónustu.

S&P gefur íslenska ríkissjóðnum lánshæfiseinkunnina A/A-1, að því er segir í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu. Þar kemur fram það mat fyrirtækisins að hógvær nettó skuldastaða ríkisins veiti efnahagsáfallinu viðspyrnu.

Stöðugar horfur endurspegli viðnámsþrótt hagkerfisins bæði á sviði ríkisfjármála sem og í ytri stöðu þjóðarbúsins, og veiti svigrúm til að takast á við áfallið vegna Covid-19 á næstu árum, og þær áhættur sem því fylgja. Sterk stofnanaumgjörð og skilvirk stefnumótun styðji við lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs.

Þá er bent á að lánshæfismat ríkissjóðs gæti hækkað ef staða opinberra fjármála og erlend staða þjóðarbúsins styrkist verulega umfram það sem fyrirtækið gerir ráð fyrir. Hraðari viðsnúningur en gert er ráð fyrir geti dregið úr skuldsetningu og næmni gagnvart ytri áhættuþáttum. Á móti gæti lánshæfismat ríkissjóðs lækkað ef samdráttur í efnahagslífi vegna Covid-19 varir lengur en gert er ráð fyrir, til dæmis vegna lengri og dýpri niðursveiflu í ferðaþjónustu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×