Erlent

Romney borgar meira til Mormónakirkjunnar en í skatta

Milljarðamæringurinn Mitt Romney borgar meira til Mormónakirkjunnar í Bandaríkjunum en hann borgar í skatta þar í landi.

Skattframtöl Romney sem hann hefur neyðst til að opinbera sýna að í fyrra og árið 2010 borgaði Romney aðeins 13,9% af tekjum sínum í skatt en almennir launamenn í Bandaríkjunum borga allt að 35% af sínum tekjum. Mismunurinn skýrist af því að tekjur Romney eru að mestu fjármagnstekjur úr fjárfestingasjóðum. Slíkar tekjur bera mun minni skatta en launatekjur.

Athygli vekur að Romney á töluvert fé inni á reikningum í skattaskjólum eða stöðum á borð við Lúxemborg og Caymaneyjar. Talið er að þær upphæðir nemi allt að yfir 30 milljörðum króna að því er segir í umfjöllun blaðsins Washington Post um málið. Romney er hinsvegar búinn að loka bankareikningi sem hann átti í Sviss.

Romney er mormóni og nýtur Mormónakirkjan þess. Þannig borgaði Romney rúmlega 750 milljónir króna í skatt þessi tvö ár á meðan hann borgaði 860 milljónir króna í tíund til Mormónakirkjunnar og góðgerðastofnana á hennar vegum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×