Erlent

Ástralskur stjórnmálamaður apaði eftir Michael Douglas

Samgönguráðherra Ástralíu hefur verið sakaður um að hafa hermt eftir ræðu Michael Douglas úr kvikmyndinni The American President frá árinu 1995.

Anthony Albanese lét orðin falla á fjölmiðlafundi í Canberra í dag. Hann fór hörðum orðum um leiðtoga stjórnarandstöðunnar, Tony Abbot.

Það var síðan stjórnarmaður Frjálslyndra í Ástralíu sem benti á líkindin við ræðu Michael Douglas úr The American President. Hann setti saman stutt myndband þar sem ræður Albanese og Douglas eru settar saman.

Myndbandið er kallað: „Albo, þú ert enginn Michael Douglas."

Í kvikmyndinni leikur Douglas pólitíkusinn Andrew Shepherd. Myndin var skrifuð af Aaron Sorkin en hann kom seinna meir að framleiðslu sjónvarpsþáttanna The West Wing. Sorkin fékk síðan Óskarsverðlaun fyrir The Social Network á síðasta ári en hann skrifaði handrit myndarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×