Erlent

Annar sjóðanna sem vill Iceland var stofnaður af Mitt Romney

Magnús Halldórsson skrifar
Tveir erlendir fjárfestingasjóðir berjast nú um verslunarkeðjuna Iceland Foods við forstjórann og stofnandann Malcolm Walker. Annar sjóðanna var stofnaður af Mitt Romney sem vinnur nú að því að verða fulltrúi Repúblikana í forsetakosningunum Bandaríkjunum síðar á árinu.

Söluferlið á Iceland Foods þar sem skilanefndir Landsbankans og Glitnis fara með 77 prósent hlutafjár, stendur nú sem hæst.

Fjölmiðlar í Bretlandi greindu frá því í morgun að fjárfestingasjóðir í eigu Bain Capital og BC Partners séu meðal þeirra sem vilja eignast félagið.

Malcolm Walker, stofnandi félagsins, er einnig í þeim hópi, eins og greint hefur verið frá. Hann á samningsbundinn rétt til þess að eignast fyrirtækið ef hann jafnar hæsta boð sem berst í félagið í söluferlinu. Hann á enn 23 prósent hlut í félaginu.

Skilanefndirnar hafa gert sér vonir um að fá 1,5 milljarða punda, jafnvirði tæplega 290 milljarða króna, fyrir Iceland Foods. Allt er þó á huldu enn hversu hátt verði kaupendur eru tilbúnir að greiða fyrir félagið. Iceland Foods er meðal verðmætustu eigna skilanefndar Landsbankans og skiptir því verulegu máli þegar kemur endurheimtum úr þrotabúinu.

Hinn 64 ára gamli Romney er vellauðugur. Hann stýrði Bain Capital til ársins 1999 þegar hann hóf að helga stjórnmálum innan Repúblikanaflokksins alla sína krafta. Þegar hann hætti hjá félaginu sem forstjóri hélt hann áfram að vera hluthafi.

Romney hefur verið gagnrýndur nokkuð að undanförnu fyrir að leggja heldur lítið af auði sínum til samfélagsins en af um 5 milljarða tekjum hans í fyrra greiddi hann ríflega 13 prósent skatt.

Bain Capital var stofnað 1984 og er nú með rúmlega 60 milljarða dollara, um 7.400 milljarða króna, í eignastýringu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×