Innlent

Lengri ábyrgð ekki ófrávíkjanleg krafa

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hitti sendiherra Breta og Hollendinga í gær og ræddi áframhald Icesave-málsins. Steingrímur segir hugmyndir þjóðanna vera fyrstu viðbrögð við samþykkt Alþingis. Málið sé í eðlilegum farvegi og aldrei hafi verið til umræðu að kalla þing saman núna, enda verði það sett 1. október. Frekari viðræður muni leiða í ljós hvort málið þurfi fyrir Alþingi á nýjan leik.

Bretar og Hollendingar gerðu athugasemdir við það að ríkisábyrgðin geti fallið úr gildi á ákveðnum tímapunkti, hvernig sem lánið stendur þá.

Í fyrirvörum Alþingis er kveðið á um að að ríkisábyrgðin gildi til 5. júní 2024. Stefni í að lánsfjárhæðin, ásamt vöxtum, verði ekki að fullu greidd fyrir þann tíma „skulu aðilar lánasamninganna þá tímanlega eiga með sér viðræður um meðferð málsins og áhrif þess á samningana og skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta", eins og segir í lögunum.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að Bretar og Hollendingar líti svo á að með þessu ákvæði séu lausir endar skildir eftir. Það sé því í raun sett í hendur framtíðarviðræðunefnda hvað gerist ef ekki tekst að greiða lánið upp fyrir tilsettan frest. Embættismenn þjóðanna hafa hist tvisvar á rúmri viku til að ræða málið.

Stuðningur er við það í þingflokkum stjórnarflokkanna að halda viðræðum áfram. Steingrímur segir að umræðurnar haldi áfram næstu daga, allir séu á eitt sáttir um að brýnt sé að ljúka málinu. Óþarfa upphlaup hafi verið hér heima við hugmyndum Breta og Hollendinga. Mikilvægast sé að leysa málið farsællega, þjóðinni til heilla.

Stjórnarandstæðan hefur lýst því yfir að um ófrávíkjanlegt skilyrði sé að ræða þegar kemur að lokum ríkisábyrgðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×