Skoðun

Sjúkraliðar gegna lykilstörfum

Sandra B. Franks skrifar

Í síðustu viku kom framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala fram á upplýsingafundi almannavarna vegna COVID-19. Þar var meðal annars rætt um breytingar á starfsemi spítalans, lykilstöður hjúkrunarfræðinga og þjálfun þeirra, mönnun á hjúkrunardeildum og bakvarðarsveit. Það er vissulega brýnt að deila með þjóðinni erfiðri stöðu spítalans og framkvæmd hjúkrunar á þessum tímum. Hjúkrunarfræðingar eru vel að því komnir að mikilvægi starfa þeirra sé rætt. En furðu vekur hvernig ósýnileika sjúkraliða er haldið á lofti.

Sjúkraliðar gegna lykilhlutverki í heilbrigðiskerfinu. Um 600 - 700 sjúkraliðar starfa að jafnaði við Landspítala. Auk þeirra hafa 57 sjúkraliðar verið ráðnir til starfa við spítalann úr bakvarðarsveit. Sjúkraliðar standa vaktina og eru í framlínu, klæddir grænu í baráttunni gegn COVID-19. Þeirstofna lífi sínu og heilbrigði í hættu með því að sinna vinnunni sinni, sem teygir sig í langflestum tilvikum mun lengra en starfið segir til um. Þeir fara heim dauðþreyttir á líkama og sál. Þurfa jafnvel að vera í sóttkví frá öðrum fjölskyldumeðlimum og lifa í hálfgerðri einangrun frá samfélaginu. Því aðstæðurnar krefjast þess.

Fram hefur komið að hjúkrunarfræðingar á Landspítala fá áfram viðbótargreiðslur vegna vaktaálags. Röksemdir sem gefnar voru fyrir að viðhalda þessum greiðslum eru sérstakar aðstæður sem nú eru uppi. Í mínum huga á að vera óþarft að benda á það augljósa. Að markviss samvinna og samskipti sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga er það sem þarf þegar tryggja á öryggi og gæði hjúkrunarþjónustunnar. Að það eru einmitt þessar starfsstéttir sem eiga það sameiginlegt að vera í miklu návígi við sjúklinga og standa hjúkrunarvaktina saman á þessum fordæmalausu tímum. En hvað gera stjórnendur Landspítala fyrir sjúkraliða?

Á Landspítala er starfandi Hjúkrunarráð. Sjúkraliðar hafa um árabil lagt fram beiðni um aðild að ráðinu. Hjúkrunarráð hefur ítrekað hafnað aðkomu sjúkraliða. Það er í raun óskiljanlegt því með samvinnu og samstarfi þessara stétta á þeim vettvangi er gagnkvæmur ávinningur er augljós. Vanþekking hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstarfsmanna á faglegri hæfni sjúkraliða er vel þekkt. Þegar samstarfsfólk skortir innsæi á þekkingu og færni nánustu samstarfsélaga myndast álag, sem síðar getur haft alvarlegar afleiðingnar.

Það er alþekkt að mönnun starfsmanna sem vinna við hjúkrun á Íslandi hefur lengi verið ábótavant. Brottfall sjúkraliða sem hafa gild starfsleyfi útgefin af Embætti landlæknis er yfir 50%. Vissulega hefur einhver hópur farið í frekara nám á heilbrigðisvísindasviði eða í aðrar námsgreinar, sem er jákvætt. Aðrir hafa farið annað. Margar ástæður geta legið á baki þess að sjúkraliðar hverfi til annarra starfa. En eitt er víst að síendurtekin ósýnileiki á vinnuframlagi sjúkraliða sem dregin er fram af hálfu stjórnenda Landspítalans og Hjúkrunaráði er ekki rétti hvatinn til að halda þeim í starfi.

Höfundur er formaður Sjúkraliðafélags Íslands



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×