Ágúst Jóhannsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handbolta. Hann tekur við starfinu af Halldóri Sigfússyni sem óskaði eftir því að hætta.
Auk þess að vera aðstoðarmaður Arnars Péturssonar með A-landsliðið verður Ágúst þjálfari U-16 ára landsliðs kvenna.
Ágúst hefur tvisvar sinnum stýrt kvennalandsliðinu, fyrst á árunum 2000-01 og svo 2011-16. Hann fór með íslenska liðið á tvö stórmót, HM 2011 og EM 2012. Á heimsmeistaramótinu í Brasilíu 2011 komst Ísland í sextán liða úrslit.
Undanfarin tvö ár hefur Ágúst þjálfað færeyska kvennalandsliðið en í síðustu viku var greint frá því að hann væri hættur með liðið.
Ágúst hefur stýrt kvennaliði Vals undanfarin þrjú ár. Undir hans stjórn unnu Valskonur þrefalt tímabilið 2018-19.