Skoðun

Sorg á tíma samkomubanns

Anna Lísa Björnsdóttir skrifar

Að syrgja er einmanalegt undir venjulegum kringumstæðum, að syrgja á þessum tíma samkomubanns er einangrandi.

Jarðarfarir eru fyrir eftirlifendur – en núna þurfa nánustu vandamenn að velja að hámarki 20 manns með sér í athöfnina og sitja langt frá hvert öðru. Það er fámenn jarðarför, ef hún er þá haldin og syrgjendur geta ekki faðmað eða fengið faðmlög. Þannig missa syrgjendur ekki bara ástvin, en einnig nándina og dýrmæta kveðjustund sem er mikilvæg í sorgarúrvinnslu.

Ástvinamissir

Aðstæður syrgjenda hafa á nokkrum vikum breyst til muna, en það breytir því ekki að það þarf að læra að lifa með sorginni. Til þess að koma til móts við syrgjendur á þessum tíma hefur Sorgarmiðstöð stofnað lokaðan hóp á facebook fyrir þau sem misst hafa ástvin. Við viljum gefa syrgjendum tækfæri í öruggu umhverfi til að ræða og deila reynslu af missinum. Það að tjá tilfinningar sínar í hópi sem skilur hvernig þér líður er mikils virði og að hjálpa syrgjendum að læra að lifa við missinn í algjörlega breyttri tilveru - er það sem við stefnum að í Sorgarmiðstöð.

Hægt er að finna hópinn á facebook.

Aðstandendur

Það er hægt að sýna syrgjendum hugulsemi og nánd þrátt fyrir kringumstæðurnar. Það má nota tæknina til þess að vera í sambandi, hringja eða nota myndsímtöl, því það getur verið gott að spjalla augliti til auglitis. Það minnir syrgjendur á að þau eru ekki ein, þótt það sé ekki líkamleg nánd til staðar. Aðstandendur og vinir geta stutt syrgjendur í að minnast ástvinar, til dæmis er hægt að skoða myndaalbúm í myndsímtali og minnast skemmtilegra augnablika. Einnig er hægt að skrifa niður minningar um hinn látna og senda í bréfi eða í textaskilaboðum.

Þótt fátt komi í stað nándar getur það hjálpað að finna að það er verið að hugsa til þeirra sem syrgja og þegar hægt er að hittast í eigin persónu aftur er stutt í nándina og úrvinnslu sorgar saman.

Með því að styðja þann sem syrgir núna, sýna samhug og samkennd í verki, með skilaboðum, hringingum eða blómasendingum, matarsendingum eða hverju öðru sem gæti minnt syrgjandann á að aðstandandinn eða vinur er til staðar, skapast nánd og minningar sem munu orna langt fram eftir.

Höfundur er í stjórn Sorgarmiðstöðvar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.