Innlent

Netþjónabú gætu skapað fleiri atvinnutækifæri en álið

Röð netþjóna í svokölluðu netþjónabúi.
Röð netþjóna í svokölluðu netþjónabúi. MYND/Hostedsolutions.com

Netþjónabú gæti skapað fleiri atvinnutækifæri en álframleiðsla,  miðað við hverja raforkueiningu, sem reksturinn tekur til sín.

Þetta kemur fram í svari iðnaðarráðherra við fyrirspurn Ármanns Kr. Ólafssonar þingmanns. Þannig gætu skapast allt að 2,4 bein störf við netþjónabú fyrir hvert Megawatt af raforku, en aðeins eitt starf skapast á Megawatt í áliðnaði. Í járnblendi skapast tæplega tvö bein störf og eitt og hálft við kísilvinnslu.

Hér er aðeins talað um bein störf í hverri grein, en ef svonefnd afleidd störf eru talin með þá skapast tvö störf aukalega við hvert Megawatt í áliðnaði, svo dæmi sé tekið.

Í svari ráðuneytisins eru tekin tvö dæmi af fyrirhuguðum gagnaverum hér á landi. Annarsvegar gagnaver á Suðvesturlandi sem nýtti allt að 25 MW rafafl í byrjun og gæti þurft 30-60 fasta starfsmenn. „Fjöldi beinna starfa yrði 1,2-2,4 á hvert MW, en ef allt væri talið, bein störf og afleidd störf, eru störfin 2,4-4,8 á hvert MW. Þetta hlutfall kynni að breytast ef gagnaverið yrði stækkað,“ segir einnig.

Þá er bent á að annar fjárfestir hafi sýnt áhuga á að reisa mörg gagnaver sem staðsett yrðu víða um landið. Hvert þeirra mundi þurfa 10-15 MW rafafl. „Fjöldi beinna starfa yrði um 1,3-1,5 á hvert MW, en ef allt er talið, bein störf og afleidd, yrðu störfin 2,7-3,0 á hvert MW,“ segir í svari iðnaðarráðherra.

Í svari ráðherra kemur þó fram að erfitt sé að meta fyrirfram fjölda starfsmanna í hugsanlegum gagnaverum á Íslandi með nákvæmni og er einnig tekið dæmi frá Bandaríkjunum þar sem hlutföllin eru mun hærri en aðilar hér á landi reikna með, eða um 4,8 til 6,5 störf á hvert megawatt.

Í fréttum hér á Vísi í morgun og í hádegisfréttum Stöðvar 2  var stuðst við þær tölur en ekki áætlanir fyrir íslensk netþjónabú, beðist er velvirðingar á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×