Viðskipti innlent

FL Group ekki undir neinum þrýstingi

FL Group segist ekki undir neinum þrýstingi.
FL Group segist ekki undir neinum þrýstingi.

Vísir sagði frá því í dag að FL Group væri undir miklum þrýstingi að selja hlut sinn í dönsku bruggverksmiðjunni Royal Unibrew.

Vísir var þar að vitna í viðskiptasíðu blaðsins Berlingske frá því í dag. Blaðið hafði eftir heimildum bæði í Reykjavík og Kaupmannahöfn að slæmt uppgjör FL Group á 3ja ársfjórðungi gerði það að verkum að félagið yrði að losa sig við 25,5% hlut sinn í Unibrew.

Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóri samskiptasviðs FL Group sagði hinsvegar nú í kvöld að fullyrðingar Berlingske séu fráleitar. "Við erum ekki undir neinum þrýstingi að selja eign okkar í Royal Unibrew þrátt fyrir að tímabundnar sveiflur séu nú í gengi bréfa félagsins. Þessi iðnaður hefur að undanförnu dregist saman og eigum við von á því að það sé tímabundið en samdrátturinn skýrist m.a. af reykingarbanni í Skandinavíu og veðurskilyrðum í Vestur Evrópu. Margir af okkar samkeppnisaðilum hafa nú þegar tilkynnt um væntanlega minnkandi sölu á seinni hluta ársins. Við sjáum til lengri tíma ágæt tækifæri í okkar fjárfestingu í Royal Unibrew sem er leiðandi fyrirtæki á sínu sviði á Norðurlöndunum," sagði Halldór og bætti við:

"Við munum áfram leitast við að vinna með stjórnendum félagsins og koma okkar sjónarmiðum á framfæri en við teljum að tækifæri séu til þess að efla rekstur Royal Unibrew og minnka kostnað eins og stjórnendur félagsins eru nú að kynna fyrir fjárfestum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×