Viðskipti innlent

Stuðlar að fasteignalækkun

„Ef íbúðakaupendur verða að taka ný og óhagstæðari lán frekar en að taka yfir gömul þá getur það bæði hægt mjög á fasteignaviðskiptum og stuðlað að verðlækkun,“ segir Gylfi Magnússon, dósent við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands.

Kaupþing, sparisjóðir og Frjálsi fjárfestingabankinn, hafa gefið út að fasteignakaupendur geti ekki yfirtekið eldri lán. Fram kom í Markaði Fréttablaðsins í gær að um þriðjungur af veltu á fasteignamarkaði sé fólginn í yfirtöku eldri lána.

„Þetta getur skipt verulegu máli,“ segir Gylfi. „Mánaðarleg afborgun af hverri milljón var ríflega 5.200 krónur þegar vextir voru hvað lægstir, um fjögur prósent. Ef vextirnir eru komnir núna í til dæmis 6,5 prósent þá er afborgun af hverri milljón meira en fjórðungi meiri eða ríflega 6.600 krónur.“

Ef miðað er við tuttugu milljóna króna lán til 25 ára, segir Gylfi, sé mánaðarleg greiðslubyrði í seinna dæminu 133 þúsund krónur á mánuði en 105 miðað við lægri vextina.

Gylfi bendir einnig á að ofan á þetta bætist greiðslugjöld í hverjum mánuði, auk stimpilgjalds og annars lántökukostnaðar ætli fólk að greiða upp lánin. „Síðan koma verðbætur ofan á þetta allt saman.“ - ikh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×