Viðskipti innlent

Ráðstöfunartekjur heimila jukust um 18,7%

Ráðstöfunartekjur heimila jukust um 18,7% á milli áranna 2006 og 2005 samkvæmt nýbirtum tölum frá Hagstofu Íslands. Þá jókst kaupmáttur á mann um 8% sem er svipuð aukning og mældist á árinu 2005.

Hálf fimm fréttir Kaupþings banka fjalla um málið og þar segir m.a. að á síðustu tólf árum hafa ráðstöfunartekjur heimila um það bil þrefaldast en kaupmáttur á mann hefur aukist um 71% á sama tíma.

Mikill uppgangur í efnahagslífinu síðustu árin hefur skilað sér í auknum tekjum til heimila, þá hefur kaupmáttur á mann aðeins einu sinni á tímabilinu dregist saman en það var á árinu 2001. Neysluvöxtur heimila síðustu ár hefur m.a. verið drifinn áfram af auknum kaupmætti heimila.

Eftir fimm ára samfellt vaxtaskeið gerir greining Kaupþings banka ráð fyrir að vöxtur einkaneyslu dragist saman á árinu 2008 samhliða því sem kaupmáttur heimila dregst saman og hagkerfið gengur í gegnum skammvinna niðursveiflu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×