Innlent

Ekki lengur ríkisfangslaus: "Við erum frjáls ferða okkar"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Haustið 2008 komu átta konur úr Al Waleed flóttamannabúðunum í Írak til Íslands með börn sín og settust að á Akranesi. Ayda Abdallah er ein þeirra. „Ég er mjög glöð að vera á Íslandi. Börnin mín geta farið í skóla að læra og það er ekki stríð hérna,“ segir hún.

Með henni komu tvö börn, Ahmad og Aseel, en elstu dóttur hennar, sem þá var 17 ára gömul, var ekki hleypt til Íslands þar sem hún var gift. Hún missti fyrsta barn sitt, enda heilbrigðisþjónusta ekki upp á marga fiska í flóttamannabúðunum, en síðar fékk hún hæli í Bandaríkjunum og býr þar ásamt eiginmanni og tveimur börnum.

Fjölskyldan hér hefur ekki hitt hana í öll þessi ár og hefur aldrei séð börnin hennar tvö, því ekki er hægt að ferðast til Bandaríkjanna með flóttamannavegabréf. Nú í vikunni fengu 19 flóttamenn íslenskt ríkisfang, en Ayda var ekki í þeim hópi og þar með ekki Aseel heldur. Ástæðan var að Ayda féll á íslenskuprófi, en það var vegna veikinda sem hún glímir við. Með breytingartillögu allsherjar- og menntamálanefndar í gær var Aydu ásamt fjórum öðrum konum bætt á listann svo ríkisfang og vegabréf eru í höfn.

„Við fögnuðum mikið, ég og mamma. Nú getum við séð systur mína; við höfum ekki séð hana í fimm ár og höfum bara talað saman í gegnum tölvu,“ segir Aseel og Ayda tekur undir. „Við getum loksins farið að heimsækja dóttur mína í Bandaríkjunum. Við erum frjáls ferða okkar og getum farið að hitta ættingja og aðra sem við höfum ekki getað hitt hingað til.“

Fjölskyldan er þó ekki búin að skipuleggja ferð til Bandaríkjanna. „Ekki ennþá, við erum bara að bíða eftir vegabréfi. Þau sem gefa út vegabréf eru í jólafríi svo við bíðum bara og sjáum hvað gerist,“ segir Ahmad.

Þrátt fyrir aðeins nokkurra ára veru á Íslandi gengum þeim systkinum vel í skóla og á sunnudaginn útskrifast Ahmad úr Fjölbrautarskóla Vesturlands.

Og ertu búinn að skipuleggja framhaldið?

„Já, ég ætla kannski að vinna á næstu önn en er ekki búinn að fá vinnu. Ég er að leita. Ég stefni svo á háskólanám í haust en er ekki alveg búinn að ákveða hvað ég ætla að læra,“ segir hann.

Þeim finnst Ísland kalt en kunna vel við sig hér. „Ísland er frábrugðið Írak. Það er ekki eins mikið fólk og ekki verið að sprengja hérna eins og þar,“ segir Aseel.

„Nú getum við börnin mín verið hérna. Við höfum ekki haft ríkisborgararétt en nú getum við sagt við fólk að við séum Íslendingar,“ segir Ayda að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×