Skoðun

Um sjúklingahótel

Ólafur Ólafsson skrifar

Umræðan

Heilbrigðismál

Það var ánægjulegt að lesa viðtal við Huldu Gunnlaugsdóttur, forstjóra Landspítalans, í Fréttablaðinu 21. nóvember sl., en þar viðraði hún hugmyndir um sjúklingahótel.

Fyrir tæpum tuttugu árum kynnti landlæknisembættið þessa hugmynd. Rök voru færð fyrir því að sjúkl­ingahótel í mjög náum tengslum við sjúkrahús, þ.e. inni á lóðinni, hefði í för með sér betri nýtingu á dýrustu tæknisjúkrahúsum. Til að setja þetta í samhengi gæti maður hugsað sér að „gamli Hjúkrunarskólinn" á lóð Landspítalans gæti hýst svona starfsemi fyrir Landspítalana.

Bandaríkjamenn búa við fæsta legudaga á dýrum tæknisjúkrahúsum, enda hafa þeir nýtt sér þjónustu sjúklingahótels í marga áratugi og hafa Evrópuþjóðir tekið upp þetta fyrirkomulag með sjúklingahótel í vaxandi mæli.

Mér kom því á óvart að ýmsir sérfræðingar, jafnvel þeir sem höfðu lokið löngu sérfræðinámi í Bandaríkjunum voru heldur mótfallnir þessari hugmynd!

Eitt dæmi skal tekið. Þegar sjúklingur fer í opna hjartaaðgerð þarf hann að vistast a.m.k. 7-10 daga eftir aðgerð. Ég kom á spítala í Glasgow þar sem þessir sjúklingar vistuðust í 3-4 daga á tæknisjúkrahúsi og ef allt gekk vel voru þeir færðir inn á sjúklingahótel, dvöldust þar í 4-5 daga og jöfnuðu sig eftir aðgerðina. Kostnaðurinn þessa daga á sjúklingahótelinu var þriðjungur af kostnaði við sama dagafjölda á tæknisjúkrahúsi.

Ég vona sannarlega að forstjóra Landspítalans takist að gera þessa hugmynd að veruleika, því ekki má gleyma því að 65-70% af kostnaði heilbrigðisþjónustunnar er vegna sjúkrahússkostnaðar.

Höfundur er fyrrverandi landlæknir.






Skoðun

Sjá meira


×