Sport

Keisarinn vill lífstíðarbann

Þýska fótboltagoðsögnin Franz "Keisari" Beckenbauer vill að þeir dómarar og leikmenn sem viðriðnir eru stóra mútumálið, sem skekur þýska knattspyrnu þessa dagana, verði dæmdir í lífstíðarbann frá knattspyrnu. Einungis þannig, segir Keisarinn, verður komið í veg fyrir að þýsk knattspyrna skaðist frekar. Beckenbauer, sem hefur bæði unnið heimsmeistaratitilinn sem leikmaður og þjálfari, er án efa áhrifamesti einstaklingurinn í þýskri knattspyrnu en hann hefur ekki tjáð sig um málið fyrr en nú. "Ég taldi að svona hlutir gætu ekki gerst hérna [í þýska boltanum]", sagði Beckenbauer en hann telur að hneykslismálið muni skaða ímynd þýskrar knattspyrnu fyrir heimsmeistaramótið 2006, sem fer einmitt fram í þýskalandi. Einn dómaranna sem liggur undir grun í málinu, Bundesligu-dómarinn Juergen Jansen, hélt sérstakan blaðamannafund í dag til að reyna að hreinsa nafn sitt. Höfuðpaurinn í málinu, dómarinn Robert Hoyzer, benti rannsakendum á Jansen og sagði hann hafa hagrætt úrslitum í leik Kaiserslautern gegn Freiburg fyrr í vetur, leik sem hinir fyrrnefndu sigruðu 3-0. Jansen sver þessar ásakanir af sér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×