Innlent

Segja sjávarútveginn tapa milljörðum vegna ákvörðunar ráðherra

Saltfiskverkendur segja að íslenskur sjávarútvegur tapi milljörðum króna vegna ákvörðunar sjávarútvegsráðherra að banna notkun svokallaðra fosfata í saltfiski frá áramótum. Talsmaður stærsta framleiðandans, Vísis í Grindavík, segir ákvörðun ráðherra óskiljanlega.

Svokölluð fjölfosföt eru orðin allsráðandi hérlendis við verkun saltfisks til að gera hann hvítari og stinnari, og seinka því að hann gulni. Íslendingar og aðrir, sem náð hafa tökum á þessari aðferð, hafa þannig fengið hærra verð.

Sveinn Ari Guðjónsson, framleiðslu- og sölustjóri Vísis, segir að á dýrustu markaðssvæðum Evrópu, Ítalíu, Grikklandi og Spáni, vilji neytendur ekki gulan fisk. Þeir vilji bara hvítan fisk. Efnið geri það að verkum að hvíti liturinn varðveitist lengur og betur.

Fosfötin er alþekkt í matvælaframleiðslu, og meðal annars sett í kjöt, osta og gosdrykki, en einnig frosinn þorsk og hafa ekki áhrif á bragð. Íslenskir saltfiskframleiðendur segja að þegar listi yfir leyfða notkun var settur saman hjá Evrópusambandinu hafi notkun í saltfiski ekki verið þekkt og hann því ekki verið skráður.

Sveinn segir að það standi ekki svart á hvítu hjá Evrópusambandinu að það megi nota þetta efni í saltfisk. En það standi heldur ekki að það megi ekki.

Hérlendis telja margir að það sé einkum vegna þrýstings frá samkeppnisaðilum í Noregi sem Eftirlitsstofnun EFTA krafðist banns hérlendis. Það muni valda því að margir salfiskverkendur færi sig yfir í ferskan þorsk og hafa dómínó-áhrif yfir alla greinina, að sögn Sveins, og það endi í lækkuðu fiskverði.

"Þannig að við erum að verðfella allan íslenskan þorsk bara á einu bretti. Það er bara þannig," segir Sveinn Ari. Menn horfi upp á gríðarlegt tjón, sem hlaupi á milljörðum króna.

Evrópusambandið er að skoða umsókn um að fosföt verði leyfð í saltfiski og telur Sveinn að sjávarútvegsráðherra hefði átt að bíða með bann, ekki síst í ljósi þess að bæði Danir og Færeyingar ætla að bíða fram á vor.

"Þannig að þetta er óskiljanlegt," segir hann.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×