Innlent

Atvinnuleysi minnkar enn

Atvinnuleysi í apríl var 2,3 prósent samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar og hefur ekki mælst jafnlítið í þessum mánuði síðan árið 2001, en þá mældist það 1,6 prósent. Alls voru skráðir rúmlega 74.200 atvinnuleysisdagar á landinu öllu í síðasta mánuði sem jafngildir því að 3.542 manns hafi að meðaltali verið á atvinnuleysisskrá í mánuðinum. Meðalfjöldi atvinnulausra var tæplega 7 prósentum minni í apríl en í mars síðastliðnum og hefur atvinnulausum fækkað um 28 prósent frá apríl í fyrra. Þá fækkaði langtímaatvinnulausum lítillega milli mars og apríl en sá hópur er enn nokkuð fjölmennur, eða um 1.415 einstaklingar. Hlutfallslegt atvinnuleysi minnkar alls staðar á landinu á milli mars og apríl, mest á Vestfjörðum og Vesturlandi. Eins og í mars gengur konum verr að fá störf við hæfi en körlum, en atvinnulausum körlum fækkaði um 222 í apríl á meðan konum fækkaði aðeins um 91.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×