Körfubolti

Nýi Þórsarinn hoppaði hærra en Vince Carter og McGrady í nýliðabúðum NBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jahii Carson í leik með ástralska liðinu Wollongong Hawks í október 2014 en þetta var hans fyrsta tímabil sem atvinnumaður utan Bandaríkjanna.
Jahii Carson í leik með ástralska liðinu Wollongong Hawks í október 2014 en þetta var hans fyrsta tímabil sem atvinnumaður utan Bandaríkjanna. Getty/ Joosep Martinson

Bandaríski körfuboltamaðurinn Jahii Carson hefur samið við Þór um að spila með liðinu en hann spilaði með Arizona State í bandaríska háskólaboltanum og var tvisvar kosinn í úrvalslið PAC-12 deildarinnar.

Þetta kemur fram á Hafnarfréttum og þar staðfestir Lárus Jónsson komu leikmannsins. „Við bindum vonir við að hann komi sem leiðtogi inn í liðið sem gerir aðra leikmenn í kringum sig betri og hjálpi okkur að spila skemmtilegan og árangursríkan körfubolta,“ segir Lárus Jónsson þjálfari Þórs um Jahii Carsson í samtali við Hafnarfréttir.

Jahii Carson fór í nýliðavalið árið 2014 og vakti þá sérstaklega athygli í nýliðabúðunum hvað hann hoppaði svakalega. Carson stökk þá 47 tommur eða rúma 119 sentimetra og þá höfðu aðeins sjö stokkið hærra í sögu nýliðamælinganna ( NBA Pre-Draft Combine).

Nýi Þórsarinn hoppaði meðal annars hærra en háloftamennirnir Vince Carter og Tracy McGrady og þá var hann einnig með meiri stökkkraft en bakverðirnir John Wall og Damian Lillard.

Jahii Carson var með 18,5 stig og 4,9 stoðsendingar að meðaltali í 68 leikjum í háskólaboltanum en hann spilaði bara í tvö ár áður en hann reyndi fyrir sér í atvinnumennsku.

Carson var ekki valinn í nýliðavalinu og tókst ekki að vinna sér sæti í liði Houston Rockets í sumardeildinni. 8,4 stig og 1,6 stoðsendingar í leik þar voru ekki nóg.

Hans fyrstu skref í atvinnumennsku voru tímabilið 2014-15 með ástralska liðinu Wollongong Hawks og hann hefur síðan spilað í Serbíu, Tyrklandi, Kanada, Grikklandi, Rúmeníu og Kýpur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×